is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/2477

Titill: 
  • Um upplýsingaskyldu seljanda í fasteignakaupum og fleiri reglur laga nr. 40/2002 um fasteignakaup
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Efni ritgerðarinnar er á sviði fasteignakauparéttar. Megin viðfangsefnið er upplýsingaskylda seljanda í fasteignakaupum. Markmiðið með ritgerðinni er einkum tvíþætt. Fyrra markmiðið er að fjalla ítarlega um þær reglur laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, sem kveða með beinum hætti á um upplýsingaskyldu seljanda, og þær afleiðingar sem brot á þeim geta haft í för með sér. Síðara markmiðið er að gera grein fyrir öðrum reglum í fasteignakaupum sem tengjast upplýsingaskyldu seljanda, og draga upp mynd af því með hvaða hætti reglurnar tengjast.
    Uppbygging ritgerðarinnar er á þann veg að fyrst er fjallað um upplýsingaskyldu seljanda í kauparétti, og síðan gerð grein fyrir þeim sérsjónarmiðum sem gilda um upplýsingaskyldu í fasteignakaupum. Því næst er fjallað um þær reglur sem tengjast upplýsingaskyldu seljanda. Fyrst er gerð grein fyrir aðgæsluskyldu kaupanda, því næst um hinn svo kallaða gallaþröskuld, og loks um réttaráhrif þess að fasteign er seld með almennum fyrirvara af hálfu seljanda. Er umfjölluninni um þessar reglur háttað á þann veg, að annars vegar er gerð grein fyrir hvað felst í reglunum sjálfum, og hins vegar á hvern hátt þær tengjast upplýsingaskyldu seljanda. Þá er sérstakur kafli þar sem fjallað er um vanefndaafleiðingar brota á upplýsingaskyldu seljanda. Eru í þeim kafla rakin þau vanefndaúrræði sem kaupandi getur beitt, og einnig vikið að réttindamissi kaupanda sökum tómlætis, auk þess sem fjallað er um aðrar afleiðingar brota á upplýsingaskyldu seljanda. Þar næst er fjallað um upplýsingaskyldu og skaðabótaábyrgð fasteignasala, og skoðað með hvaða hætti upplýsingaskylda fasteignasala tengist upplýsingaskyldu seljanda skv. fasteignakaupalögunum. Í lokakafla ritgerðarinnar er stutt samantekt með helstu niðurstöðum.
    Ritgerðin er einkum byggð á fræðiritum og greinum íslenskra, norskra og danskra fræðimanna. Auk þess er horft til dómaframkvæmdar Hæstaréttar þar sem reynt hefur á þær reglur sem til umfjöllunar eru, og skoðað með hvaða hætti rétturinn hefur beitt þeim í dómum sínum. Þá er einnig litið til dóma norskra dómstóla eftir því sem við á, en norsku fasteignakaupalögin voru að miklu leyti notuð sem fyrirmynd að íslensku fasteignakaupalögunum. Eru reglur landanna á sviðinu því mjög áþekkar.
    Aftast í ritgerðinni er að finna skrár yfir heimildir, lög og dóma sem vitnað er til í umfjölluninni, og auk þess atriðisorðaskrá þar sem vísað er til blaðsíðna í ritgerðinni.

Samþykkt: 
  • 6.5.2009
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/2477


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lokaútgáfa 1_fixed.pdf802.47 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Útdráttur_fixed.pdf16.11 kBOpinnÚtdrátturPDFSkoða/Opna