is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/26308

Titill: 
  • „Svo ólíkt því sem við erum búin að vera að gera" : Dogme sem kennsluaðferð í tungumálanámi
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Í verkefni þessu fjalla ég um starfendarannsókn sem ég gerði veturinn 2015-2016. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða hvernig mér, sem tungumálakennara í grunnskóla, gengi að nota Dogmekennsluaðferðina með það að markmiði að styðja við notkun nemenda á enskri tungu í kennslustundum og um leið að ígrunda og þróa starf mitt sem enskukennari til betri vegar.
    Eftir tíu ár í sama starfi við sama skóla fannst mér ég ekki alltaf vera að kenna eins og ég átti að vera að kenna. Kennslustundir og kennsluáætlanir voru orðnar að nokkuð fastmótaðri rútínu og þessu vildi ég breyta. Ég hafði áhuga á að kennslan yrði síður kennslubókamiðuð og að nemendur hefðu tækifæri til að leggja meira til málanna í kennslustundum. Í Dogme tengjast umræðuefnin og munnleg verkefni þátttakendum sjálfum frekar en að um tilbúin tilvik og persónur sé að ræða. Þannig gefur það tækifæri á meiri dýpt í samræðum og getur stuðlað að dýpri og raunsannari skilningi meðal nemenda og kennara. Ég vildi því einnig athuga hvort það að nota Dogme sem kennsluaðferð reglulega gæti leitt til aukinna og betri samskipta í kennslustundum.
    Þar sem rannsóknin er starfendarannsókn er það ég sem er bæði rannsakandinn og viðfangsefnið. Helstu gögn mín voru skrif og ígrundanir í rannsóknardagbók en að auki studdist ég við hljóðupptökur úr kennslustundum, verkefni nemenda, könnun meðal nemenda um Dogmekennslu, rýnihópaviðtal við nemendur og ýmsa minnismiða.
    Helstu niðurstöður benda til að notkun Dogme virðist henta ágætlega til að þjálfa munnlega færni nemenda. Aðferðin hefur marga kosti, hún er nemendamiðuð og sveigjanleg og styður við margt af því sem aðalnámskrá grunnskóla boðar. Viðhorf nemenda gagnvart Dogme var mjög jákvætt, þeim þótti aðferðin bæði gagnleg og skemmtileg og auðveldara var að fá nemendur til að halda sig við notkun á markmálinu. Vísbendingar voru um að notkun Dogme bætti samskipti þar sem nemendur virtust kunna að meta þá þætti sem hún hafði í för með sér líkt og minni áherslu á notkun kennslubóka, aukin áhrif nemenda í kennslustundum, dýpri samskipti og minni stýringu kennara.
    Að auki hjálpaði starfendarannsóknin mér að bæta atriði í kennslunni sem ég var óánægð með. Notkun Dogme gaf tækifæri á að vinna í mörgum af þeim þáttum sem þurfti að huga að. Áhrifin á starf mitt sem kennara voru því jákvæð og sannfærðu mig um að það er hverjum kennara nauðsynlegt að skoða sjálfan sig og kennslu sína reglulega með heiðarlegum og gagnrýnum augum.

Samþykkt: 
  • 31.10.2016
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/26308


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
2016_03_skemman_yfirlysing_lokaverkefni_29.03.16.pdf30.98 kBLokaðurYfirlýsingPDF
Lokaskjal. M.Ed.-verkefni. Ellen Mörk Björnsdóttir - PDF.pdf963.96 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna