is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/26487

Titill: 
  • Skyldur ríkisins til að tryggja vernd fyrir heimilisofbeldi í ljósi Istanbúlsamningsins og Mannréttindasáttmála Evrópu
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Vorið 2016 samþykkti Alþingi lög nr. 23/2016 um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Þar var í fyrsta skipti lögfest refsilagaákvæði sem sérstaklega tekur til heimilisofbeldis. Auk þess var bætt inn ákvæði um þvingaða hjúskaparstofnun sem gerir það sérstaklega refsivert að neyða annan mann til að ganga í hjúskap eða undir aðra sambærilega vígslu sem ekki hefur gildi að lögum. Þá breyttu lögin lögsögu- og fyrningarreglum laganna í málum af þessum toga.
    Uppruna lagabreytinganna má meðal annars rekja til þess að þann 11. maí 2011 var samningur um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum samþykktur á vettvangi Evrópuráðsins og undirritaður af íslenskum stjórnvöldum sama dag. Samningurinn er gjarnan kenndur við staðinn þar sem hann var samþykktur og kallaður Istanbúlsamningurinn (hér á eftir verður vísað til þess heitis). Var Ísland meðal fyrstu ríkja til að undirrita samninginn og er fullgilding hans nú í undirbúningi hér á landi. Liður í því ferli er að greina hvort hann fellur að íslensku réttarkerfi og hvort breyta þurfi lögum, reglum, framkvæmd eða öðru til að tryggja samræmi milli ákvæða samningsins og íslensks réttar.
    Ísland er aðili að öllum helstu mannréttindasamningum sem hafa að geyma ákvæði um mannhelgi, persónufrelsi og bann við ómannlegri meðferð, en undir slík ákvæði gæti fallið réttur kvenna til að njóta verndar fyrir heimilisofbeldi. Má þar nefna mannréttindasáttmála Evrópu (hér eftir: MSE), og ýmsa samninga á vegum Sameinuðu þjóðanna, svo sem alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, samning gegn pyndingum og samning um afnám allrar mismununar gegn konum (hér eftir er til styttingar vísað til Kvennasamningsins). Enginn þessara samninga skilgreinir þó hugtakið „ofbeldi gegn konum“„ né „heimilisofbeldi“ sérstaklega. Samþykkt Istanbúlsamningsins fyllti því upp í ákveðið tómarúm, en hann er eini evrópski þjóðréttarsamningurinn sem sérstaklega skilgreinir „ofbeldi gegn konum“ sem mannréttindabrot og eina gerð mismununar.
    Fram til setningar laga nr. 23/2016 var ekki talin þörf á að setja sérstakt ákvæði um heimilisofbeldi eða ofbeldi í nánum samböndum í íslensk refsilög heldur leiddu náin tengsl ákærða og brotaþola í ofbeldisbrotum einungis til refsiþyngingar, sbr. 3. mgr. 70. gr. hgl.
    Það að nú hafi verið lögfest sérstakt refsilagaákvæði sem tekur til heimilisofbeldis hefur bein tengsl við þróun alþjóðasamvinnu á þessu sviði. Meginmarkmið ritgerðarinnar er að varpa ljósi á með hvaða hætti alþjóðlegar skuldbindingar er varða heimilisofbeldi, svo og ofbeldi í nánum samböndum, hafa áhrif á íslenskt lagaumhverfi og skuldbinda ríkið til þess að grípa til aðgerða.
    Uppbygging ritgerðarinnar verður með þeim hætti að fyrst verður leitað fanga í nútímasamvinnu um mannréttindi, m.a. í aðgerðum Sameinuðu þjóðanna (hér eftir: SÞ) og annarra alþjóðastofnana sem láta sig málið varða. Í því samhengi verður kannað hvernig ofbeldi gegn konum hefur verið viðurkennt sem brot á mannréttindum. Þá verður leitast við að afmarka viðfangsefnið „heimilisofbeldi“ út frá skilgreiningum alþjóðasamninga og laga á hugtökunum „kynbundið ofbeldi“ og „ofbeldi gegn konum“ og jafnframt að varpa ljósi á hvers vegna þörf er á sérstökum refsiákvæðum um slík brot í stað þess að almenn refsiákvæði um ofbeldisbrot veiti næga refsivernd. Áhersla verður lögð á að greina þjóðréttarskyldur sem hvíla á íslenska ríkinu um vernd gegn heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum og leiddar hafa verið af nokkrum ákvæðum MSE. Reglur þessar hafa einkum mótast í framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu (hér eftir: MDE) við túlkun og beitingu 8. gr. sáttmálans um friðhelgi einkalífs og 3. gr. um bann við pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, sem og 2. gr. um réttinn til lífs. Þá verður framkvæmd nefndarinnar, sem hefur eftirlit með framkvæmd Kvennasamnings SÞ, jafnframt tekin til skoðunar en MDE hefur byggt á úrskurðum og vinnu nefndarinnar við túlkun og beitingu ákvæða MSE þegar um ofbeldisbrot gegn konum ræðir. Þá verður einnig leitast við að svara hvort og með hvaða hætti MDE vísar til Istanbúlsamningsins í úrlausnum sínum.
    Í fjórða kafla verður Istanbúlsamningurinn sérstaklega tekinn til skoðunar. Fjallað verður um markmið hans og tilgang og varpað ljósi á viðbótarvernd réttinda sem samningurinn veitir. Að lokum verður litið til íslensks réttar og áhrifa alþjóðaskuldbindinga á vernd fyrir heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum á íslenskan rétt. Sérstök áhersla verður lögð á Istanbúlsamninginn og hvers vænta má af lagabreytingunum frá vorinu 2016, sem fyrr var lýst.

Samþykkt: 
  • 4.1.2017
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/26487


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Edda Björk Ragnarsdóttir (1).pdf1.38 MBLokaður til...01.01.2090HeildartextiPDF
Skemman.jpeg6.84 MBLokaðurYfirlýsingJPG