is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/2650

Titill: 
  • Rétturinn til aðgangs að gögnum í vörslu stofnana Evrópusambandsins
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Hluti af meginreglunni um gagnsæi (e. transparency) er reglan um rétt til aðgangs að gögnum (e. access to documents) en sú regla er umfjöllunarefni ritgerðarinnar. Gagnsæi stjórnsýslunnar er einn af hornsteinum lýðræðisins. Ef borgararnir eiga ekki möguleika á því að fylgjast með athöfnum ríkisvaldsins er réttarríkinu stefnt í hættu. Stjórnvöld innan Evrópusambandsins hafa á síðustu árum sætt mikilli gagnrýni vegna skorts á lýðræðislegum stjórnarháttum og gagnsæi. Má í raun segja að sambandið hafi á síðastliðnum tíu árum gengið í gegnum eldskírn upplýsingasamfélags nútímans. Árið 2001 var í fyrsta sinn sett reglugerð um aðgang að gögnum hjá Evrópuþinginu, ráðinu og framkvæmdastjórninni, með einföldun má segja að reglugerðin feli í sér málamiðlun þessara ríkja og lagahefða þeirra. Í þessari ritgerð er ætlunin að leita svara við nokkrum álitaefnum er varða réttinn til aðgangs að gögnum hjá Evrópusambandinu. Hverjir njóta í raun réttarins? Oft er bent á að rétturinn er veittur almenningi en þegar á reynir eru það mest sérfræðingar og blaðamenn sem nýta þennan rétt. Því þjóni reglan ekki þeim markmiðum sem henni er ætlað að þjóna. Hins vegar má benda á að mögulega er hægt að líta á aðgang sérfræðinga sem óbeinan aðgang almennings að upplýsingum um athafnir stjórnvalda. Þær geta oft verið óaðgengilegar fyrir hinn almenna borgara og upplýsingarnar oft í óaðgengilegu formi og torskiljanlegar. Í 4. gr. reglugerðar 1049/2001 koma fram undantekningar á réttinum til aðgangs að gögnum hjá stofnunum Evrópusambandsins. Velta má fyrir sér hvaða þýðingu undantekningarákvæði 4. gr. reglugerðar 1049/2001 hafa? Hefur tæmandi talning þeirra í reglugerðinni leitt til þess að borgararnir hafi nú aukinn rétt til aðgangs að gögnum eða hafa þær takmarkað aðganginn frá því sem áður var? Ef svo er, er slík takmörkun í samræmi við 255. gr. EB-sáttmálans? Ljóst er að einhver eðlisbreyting hefur átt sér stað eftir að reglugerðin tók gildi þó svo að undantekningarnar séu að meginstefnu samhljóða eldri reglum. Einnig verður að skoða hvert hlutverk dómstólanna tveggja er við útfærslu og skýringu á reglunum eins og þær birtust í eldri reglum og nú reglugerðinni. Hefur dómaframkvæmdin að einhverju leyti breyst eða er hún í sama farvegi og áður? Er einhver munur á aðferðafræði fyrsta stigs dómstólsins og EB-dómstólsins? Það má halda því fram í vissum tilvikum að fyrsta stigs dómstóllinn hafi beitt mjög þröngri aðferðafræði við túlkun á réttinum og oftar en ekki hefur EB-dómstóllinn neyðst til að snúa við niðurstöðum hans, borgurunum í hag. Þegar þróun reglnanna innan dómstólanna er skoðuð er nauðsynlegt að hafa ofangreind atriði í huga þar sem afstaða dómara til þess hver það er sem sækir rétt sinn getur haft afdrifaríkar afleiðingar. Að lokum má velta því fyrir sér hvaða breytingar eru nauðsynlegar til að hámarka þann rétt sem borgurunum virðist ætlaður samkvæmt 255. gr. EB-sáttmálans Einnig er tekið á því ritgerðinni hver séu tengsl reglugerðar 1049/2001 og íslensku upplýsingalaganna? Þó svo að gildissvið reglugerðar 1049/2001 sé takmarkað við stofnanir bandalagsins, er möguleiki á að reglugerðin hafi svo víðtæk áhrif að hún takmarki að einhverju leyti rétt einstaklinga hér á landi til að óska eftir aðgangi að gögnum hjá stjórnvaldi er varða tiltekna lagasetningu sem tengd er löggjöf Evrópusambandsins? Svör við slíkri spurningu eru einnig tengd vangaveltum um mismunandi eðli reglugerðar 1049/2001 og íslenskra upplýsingalaga, þar sem reglugerðin virðist ná til lagasetningar í meira mæli en íslensku upplýsingalögin gera ráð fyrir, þar sem þau ná einungis til framkvæmdavaldsins.

Samþykkt: 
  • 15.5.2009
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/2650


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Master_Vigdis_Eva_fixed.pdf834.78 kBLokaðurHeildartextiPDF