is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27446

Titill: 
  • Þegar skuggarnir lengjast og sólin roðnar. Metafýsík de Chiricos og áhrif Nietzsches á hugmyndaheim og sköpun listamannsins
Námsstig: 
  • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Þessi ritgerð er lokaverkefni til B.A.-prófs í listfræði við Háskóla Íslands. Tímabilið 1910-1914 í ferli listamannsins, Giorgio de Chiricos, er meginumfjöllunarefni ritgerðarinnar. Þessi ár marka fyrstu ár hins „metafýsíska tímabils“ de Chiricos sem átti eftir að hafa mikil áhrif á seinni tíma listhreyfingar. Þögn og kyrrð ráða ríkjum í metafýsískri myndlist og andstætt við fútúrisma eru myndir de Chiricos kyrrstæðar í tíma og fullar af óvissu og ráðgátum. Metafýsísk myndlist de Chiricos er algerlega á skjön við brautryðjendastefnur sama árabils, svo sem abstraktlistina, kúbismann og dadismann.
    Metafýsísk myndlist de Chiricos er tilkomin vegna uppljómunar sem hann varð fyrir er hann sat, tvítugur að aldri, á torgi í Flórens. Fram að því hafði de Chirico sótt innblástur sinn í þýska rómantíkera og symbólista 19. aldar, svo sem C. D. Friedrich og Arnold Böcklin en þetta örlagaríka augnablik opnaði fyrir listamanninum nýja, metafýsíska, sýn á heiminn. Uppljómunin birtist fyrir tilstilli skrifa heimspekingsins Friedrich Nietzsches sem de Chirico hafði drukkið í sig á meðan hann var í námi í München, skömmu áður.
    Verkin sem de Chirico málaði næsta hálfa áratuginn eru undirorpin nítsjeskum áhrifum sem koma bæði fyrir huglægt og sýnilega á striganum. Ráðgátan og melankólían eru ríkjandi öfl í myndunum en í gegnum þessi þemu reyndi de Chirico að fanga hina dularfulla tilfinningu, stimmung eða andrúmsloft, sem hann upplifði við lestur á Nietzsche.
    De Chirico sagði Nietzsche hafa opinberað fyrir sér „fáránleika lífsins“ sem aðeins mætti finna tilgang fyrir í list. Ráðgátan og melankólían virka eins og tvær hliðar á sama peningnum og de Chirico notaðist jafnt við bæði fyrirbærin til þess að reyna að fanga þessa meginhugmynd Nietzsches, tómhyggjuna í hinni „fáránlegu tilvist“. Tómhyggjan leiðir óhjákvæmilega til melankólíu en de Chirico notaði hana sem linsu til þess að sjá hinar mögnuðu, leyndu hliðar heimsins. Myndlist hans hafði ávallt í brennidepli að sýna að venjulegir, hversdagslegir hlutir eru ekki allir þar sem þeir eru séðir, heldur eru þeir fullir af ráðgátum.

Samþykkt: 
  • 11.5.2017
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/27446


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
HrafnkellHelgasonBA.pdf2.14 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
HrafnkellHelgasonYfirlýsing.pdf23.2 kBLokaðurYfirlýsingPDF