is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27611

Titill: 
  • Helstu gæðavísar og árangur á göngudeild barna og unglinga með sykursýki á Íslandi
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Sykursýki af tegund 1 er einn algengasti langvinni sjúkdómurinn meðal barna og unglinga og hefur nýgengi farið vaxandi undanfarna áratugi. Eitt af meginmarkmiðum meðferðar hjá börnum og unglingum er að blóðsykurgildi séu sem næst eðlilegum mörkum, en því markmiði er oft erfitt að ná. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi góðrar blóðsykurstjórnunar hjá sykursjúkum til að koma í veg fyrir eða seinka mjög alvarlegum síðbúnum fylgikvillum. Markmið rannsóknarinnar er að meta helstu gæðavísa og árangur á göngudeild barna og unglinga með sykursýki á Íslandi.
    Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til allra barna og unglinga yngri en 18 ára með sykursýki af tegund 1 sem voru í eftirfylgd við göngudeild Barnaspítala á tímabilinu 2006-2016. Upplýsingar voru fengnar úr Swediabkids gagnagrunninum, þar sem helstu breytur eru skráðar við hverja komu sjúklings. Blóðsykurstjórn var metin út frá mælingum HbA1c, og meðaltal mælinga fyrir hvert barn tekið. Einnig var skoðuð tíðni alvarlegra blóðsykurfalla og blóðsýringa.
    Niðurstöður: Heildarfjöldi barna í eftirfylgd á tímabilinu var 262 (137 drengir og 125 stúlkur), með samtals 5590 komur á göngudeild. Meðalfjöldi barna í eftirliti ár hvert var 116.9, með að meðaltali 4.21 komur. Meðalaldur barna var 13.5 ár og meðaltímalengd með sjúkdóminn 3.6 ár. Ársmeðalgildi HbA1c á tímabilinu var 66.4-70.8 mmol/mol. Meðalgildi HbA1c var 67.81 mmol/mol fyrir allan sjúklingahópinn. 18% barna náðu meðferðarmarkmiðum samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum HbA1c < 57 mmol/mol en 41.2% barna voru með HbA1c > 70 mmol/mol að meðaltali. Ekki var marktækur munur á meðalgildi HbA1c milli stúlkna og drengja, nema í aldurshópnum 12-17 ára. Marktæk hækkun var á HbA1c eftir aldri hjá stúlkum. Ekki var marktækur munur á HbA1c fyrir og eftir uppsetningu insúlíndælu. Tíðni alvarlegra blóðsykurfalla á rannsóknartímabilinu var 2.77 atvik / 100 sjúklingaár og tíðni blóðsýringa var 1.45 atvik / 100 sjúklingaár.
    Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að árangur meðferðar er ágætur í alþjóðlegum samanburði en nokkuð síðri í samanburði við hin Norðurlöndin þar sem aukinn árangur hefur náðst undanfarin ár. Mikilvægt er að fá sem nákvæmasta mynd af meðferðarárangri hérlendis til að hægt verði að ráðast í markvissar aðgerðir til að bæta árangur og auka öryggi og lífsgæði barna og unglinga með sykursýki á Íslandi.

Samþykkt: 
  • 16.5.2017
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/27611


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS_Sigridur_Birgisdottir.pdf1.11 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlysing_SÞB.pdf294.69 kBLokaðurYfirlýsingPDF