is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/27621

Titill: 
  • Fæðingasaga kvenna með alvarlega liðbólgusjúkdóma á Íslandi
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Liðbólgusjúkdómar eru bólgumiðlaðir sjálfsónæmissjúkdómar sem leggjast gjarnan á konur á barneignaraldri. Meingerð sjúkdómanna er ekki að fullu þekkt en vitað er að TNF-α spilar stórt hlutverk í sjúkdómsferlinu. Þróuð hafa verið líftæknilyf sem hamla virkni TNF-α. Meðgöngu fylgir talsverð ónæmisbæling til þess að líkami móður hafni ekki fóstrinu og TNF-α er þar einnig í aðalhlutverki. Því vakna þær spurningar hvaða áhrif liðbólgusjúkdómar og lyfjameðferð með TNF-hemlum (TNFi) hafa á meðgöngu og fæðingar kvenna með alvarlega liðbólgusjúkdóma. Þrátt fyrir rannsóknir erlendis er enn margt á huldu og þörf á frekari rannsóknum. Engin slík rannsókn hefur farið fram hérlendis fyrr en nú. ICEBIO er gagnagrunnur sem inniheldur klínískar upplýsingar um alla þá einstaklinga sem fá TNFi lyfjameðferð við liðbólgusjúkdómum á Íslandi.
    Efni og aðferðir: Rannsóknarþýðið var fengið með samkeyrslu á kennitölum kvenna úr ICEBIO við Fæðingaskrá Íslands. Skoðuð voru gagnlíkindahlutföll á áhættu fyrirburafæðingar, keisaraskurðar og lágrar Apgar einkunnar nýbura við fimm mínútur, fyrir hvern sjúkdómshóp (iktsýki, sóragigt, hryggikt og óskilgreinda liðbólgu) miðað við staðlaðan viðmiðunarhóp. Meðgöngur og fæðingar eftir TNFi meðferð voru bornar saman við fæðingar fyrir TNFi meðferð og viðmiðunarhóp, m.t.t. sömu þátta.
    Niðurstöður: Í ICEBIO voru 1140 einstaklingar skráðir í lok árs 2016, þar af 723 konur sem hafa fengið meðferð með TNFi. Af þeim hafa 409 eignast barn. Fæðingarnar voru 794 og af þeim voru 43 eftir að meðferð með TNFi hófst. Flestar mæðurnar voru íslenskar og á aldursbilinu 26-30 ára, í vinnu eða námi. Flestar fæðingarnar voru hjá konum með iktsýki (n=358), þar á eftir sóragigt (n=248) og þar næst hryggikt (n=130). Fjöldi fæðinga kvenna með óskilgreindan liðbólgusjúkdóm var 58. Dreifing meðgöngulengdar var sambærileg milli sjúkdómshópa en flestar fyrirburafæðingar voru meðal kvenna með iktsýki. Engin marktæk áhætta reyndist á fyrirburafæðingu meðal mæðra með alvarlega liðbólgusjúkóma. Flestar fæðingar fóru fram um leggöng en um 21% urðu með keisaraskurði. Þar af 46,7% með valkeisaraskurði og 53,3% með bráðakeisaraskurði. Áhætta á keisaraskurði meðal kvenna með alvarlega liðbólgusjúkdóma, var 1,57 miðað við viðmið (95% ÖB: 1,28-1,94, p<0,01) og var áhættan mest meðal kvenna með sóragigt (OR 2,11, 95% ÖB: 1,46-3,06, p<0,01). Af þeim 794 börnum sem fæddust voru 18 sem höfðu lága Apgar einkunn við fimm mínútur. Engin marktæk áhætta reyndist á lágri Apgar einkunn meðal nýburanna í samanburði við viðmið. Af þeim 43 fæðingum eftir að TNFi meðferð hófst voru 5 fyrirburar, 14 keisaraskurðir og 2 nýburar með lága Apgar einkunn við fimm mínútur. Engin marktæk áhætta var fyrir þessum þáttum, hverjum fyrir sig, í samanburði við fæðingar áður en meðferð með TNFi hófst og við viðmiðunarhóp.
    Ályktun: Konur með alvarlega liðbólgusjúkdóma eru líklegri til að fæða með keisaraskurði en aðrar konur. Áhættan breytist ekki marktækt þó konurnar hefji TNFi meðferð fyrir meðgöngu. Nýburum kvenna með alvarlega liðbólgusjúkdóma vegnar jafnvel og nýburum annarra kvenna. Þörf er á frekari rannsóknum með stærra þýði og því er fyrirhugað að leggja þessi gögn fram í samnorræna rannsókn

Samþykkt: 
  • 18.5.2017
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/27621


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Signý Rut Kristjándóttir - Fæðingasaga kvenna með alvarlega liðbólgusjúkdóma á Íslandi.pdf3.43 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing - Signý Rut.pdf539.05 kBLokaðurYfirlýsingPDF