is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskólinn á Akureyri > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/3138

Titill: 
  • "Ég hafði hana og hún mig" : bjargráð foreldra langveikra barna með hjartagalla
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Tilgangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvaða bjargráð foreldrar langveikra barna með hjartagalla notuðu til að vinna með tilfinningar sínar og hvernig komið var til móts við þarfir þeirra. Með því vildum við dýpka skilning hjúkrunarfræðinga og annarra á því hvernig foreldrar takast á við það álag sem fylgir þeirri reynslu að eignast barn með hjartagalla.
    Bakgrunnur: Meðfæddir hjartagallar eru algengastir fæðingargalla og tíðni þeirra er um eitt prósent hjá lifandi fæddum börnum. Foreldrar eru undir miklu álagi einkum í kringum þau tímabil sem börnin þurfa að gangast undir aðgerðir. Hvaða bjargráð þeir tileinka sér geta stjórnast af ýmsum þáttum. Því meiri stuðning sem foreldrar fá því minni streitueinkenni greinast hjá þeim. Aukin úrræði og betri upplýsingar um réttindi þessara barna og fjölskyldna þeirra þyrftu að vera aðgengilegri til að efla velferð þeirra.
    Rannsóknarspurningin: Hver eru bjargráð foreldra langveikra barna með hjartagalla.
    Rannsóknaraðferð: Notuð var eigindleg rannsóknaraðferð Vancouver-skólans í fyrirbærafræði en sú aðferð byggir á tólf þrepa kerfi við vinnslu og greiningu viðtala. Þessi rannsóknaraðferð hentar vel þegar skoðaðir eru litlir hópar fólks, upplifun þeirra og reynsla af ákveðnum fyrirbærum. Valdir voru foreldrar fjögurra langveikra barna með meðfædda hjartagalla.
    Niðurstöður: Greind voru tvö meginþemu út frá gögnum rannsóknarinnar: Viðbrögð við greiningu og bjargráð foreldra. Meginþemun voru síðan greind í undirþemu. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að foreldrarnir notuðu ýmis bjargráð sér til hjálpar á erfiðum tímum. Samstaða og stuðningur maka var þó hvað mikilvægastur en einnig var jákvætt hugarfar einkennandi. Aðstæður hverju sinni réðu miklu um það hvaða bjargráð foreldrarnir notuðu.
    Ályktun: Rannsakendur draga þá ályktun að huga þurfi betur að andlegri líðan foreldra langveikra barna með hjartagalla þar sem þeir þurfa á stuðningi að halda allt frá fyrstu stundu. Samstaða foreldra var einna mikilvægasta bjargráðið og því ættu hjúkrunarfræðingar að taka sérstakt tillit til þess við fræðslu og hjúkrun þessa hóps.. Einnig gefur það þeim sérstaka ástæðu til að huga vel að því stuðningsneti sem einstæðir foreldrar langveikra og hjartveikra barna hafa. Mikilvægt er að hjúkrunarfræðingar reyni að kenna foreldrum og hvetja þá til að nota starfshæfnismiðuð bjargráð. Rannsakendur telja einnig að með aukinni sérfræðiþekkingu hjúkrunarfræðinga í framtíðinni muni þeir efla stöðu hjúkrunar og koma betur til móts við þarfir skjólstæðinga.
    Lykilhugtök: andleg líðan, upplifun, hjartagallar, hjúkrun, fjölskylda, bjargráð, langveik börn, stuðningur.

Athugasemdir: 
  • verkefnið er lokað til júlí 2009
Samþykkt: 
  • 30.6.2009
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/3138


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ég hafði hana og hún mig.pdf8.28 MBOpinn"Ég hafði hana og hún mig" Bjargráð foreldra langveikra barna með hjartagalla.PDFSkoða/Opna