is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/3193

Titill: 
  • Almenn útboð verðbréfa og ábyrgð á efni lýsinga
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Efni ritgerðarinnar er almenn útboð verðbréfa með sérstaka áherslu á reglur sem gilda um lýsingar og ábyrgð á efni lýsinga. Meginkaflar eru tveir. Fyrri kaflinn - 4. kafli - fjallar um lýsingar og hvaða reglur gilda um þær. Nokkuð ítarlega er farið yfir tilskipun Evrópusambandsins um útboðs- og skráningarlýsingar nr. 2003/71 (lýsingartilskipun). Hún var innleidd í VI. kafla laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 (vvl.) og í reglugerð um almenn útboð verðbréfa að verðmæti 210 millj. kr. eða meira og skráningu verðbréfa á skipulegan verðbréfamarkað, nr. 242/2006. Síðari kaflinn - 7. kafli - fjallar um ábyrgð á gerð og efni lýsinga fyrir útboð verðbréfa og skráningu verðbréfa á skipulegan verðbréfamarkað. Fjallað er um fleiri atriði sem tengjast efninu svo sem töku verðbréfa til viðskipta, sölutryggingu, reglur kauphalla, undantekningar frá reglum um almenn útboð og skráningu fyrir verðbréfum í útboði og jafnræði fjárfesta.
    Í 2. kafla er hugtakið „almennt útboð verðbréfa“ skoðað. Það er skilgreint í 1. tölul. 43. gr. vvl. Skilgreining á hugtakinu er komin úr lýsingartilskipuninni.
    Í 3. kafla er fjallað um sögulegan aðdraganda almennra útboða á Íslandi. Einnig er fjallað um útboðsreglur í Bandaríkjum Norður-Ameríku.
    Í 4. kafla er fjallað um lýsingar. Eingöngu er farið yfir meginreglur þeirra. Farið er nokkuð ítarlega yfir helstu reglur lýsingartilskipunarinnar. Gerð er grein fyrir helsta atriði tilskipunarinnar, evrópsku vegabréfi lýsinga. Í því felst að staðfest lýsing í einu ríki Evrópska efnahagssvæðisins er nothæf í öðrum ríkjum þess, án þess að það þurfi að staðfesta hana aftur. Getur þannig skapast hagræði. Það er fjallað um víðtæka skilgreiningu almenns útboðs og hvaða þýðingu það getur haft. Einnig er fjallað um staðfestingu bandarískra lýsinga á grundvelli 20. gr. tilskipunnarinnar, sbr. einnig 13. gr. reglugerðar nr. 242/2006. Greint er frá fleiri atriðum lauslega.
    Í 5. kafla er fjallað um undantekningar frá almennum útboðum. Slík útboð eru nefnd lokuð útboð. Gerð er grein fyrir hugtakinu hæfir fjárfestar.
    Í 6. kafla er farið lauslega yfir töku verðbréfa til viðskipta og reglur kauphalla um skráð félög.
    Í 7. kafla er fjallað um ábyrgð á efni lýsinga. Lýst er skyldum þeirra sem vinna við undirbúning og gerð lýsinga. Þetta eru aðilar á borð við umsjónaraðila útboðs, vanalega fjármálafyrirtæki, endurskoðendur, stjórn útgefanda, útgefandi o.fl. Ábyrgð flestra grundvallast á sérfræðiábyrgð. Komist er að þeirri niðurstöðu að mjög erfitt sé fyrir fjárfesta að fá tjón sitt bætt vegna vankanta á lýsingu. Færð eru rök fyrir því að dómstólar hafi veigrað sér um of við að beita þeim úrræðum sem þeir hafa, þ.e. að hliðra sönnunarbyrði á grundvelli sérfræðiábyrgðar og dæma bætur að álitum.
    Í 8. kafla er fjallað um sölutryggingu. Með því ábyrgist fjármálafyrirtæki að kaupa þann hluta verðbréfa sem ekki næst áskrift fyrir í útboði. Fjallað er lauslega um möguleika á hagsmunaárekstrum þegar notast er við sölutryggingu.
    Í 9. kafla er fjallað um skráningu fyrir verðbréfum og jafnræði fjárfesta. Bent er tiltekna óvissu sem getur skapast þegar eftirspurn eftir verðbréfum er meiri en framboð.

Samþykkt: 
  • 8.2.2009
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/3193


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Forsida_meistararitgerdPall_fixed.pdf46.6 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna
riksson_fixed.pdf771.29 kBLokaðurMeginmálPDF