ÍslenskaenEnglish

Aðilar að Skemmunni

Leit eftir:


LokaverkefniHáskóli Íslands>Heilbrigðisvísindasvið>Meistaraprófsritgerðir>

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/3203

Titill

Tengsl hvítavefsbreytinga og heiladrepa við taugasálfræðilega færni. Öldrunarrannsókn Hjartaverndar

Útdráttur

Með hækkandi aldri má venjulega greina breytingar í taugasálfræðilegri færni. Einnig er vel þekkt að hvítavefsbreytingar og heiladrep greinast í auknum mæli með hækkandi aldri. Óljóst er hver hlutdeild vefjabreytinganna er í breytingum á taugasálfræðilegri færni þegar tekið er tillit til aldurs, kyns og menntunar en þeir þættir hafa mikil áhrif á frammistöðu á taugasálfræðilegum prófum.
Markmið: Að leggja mat á hvernig aldur, kyn, menntun, hvítavefsbreytingar og heiladrep tengjast taugasálfræðilegum breytingum á efri árum hjá annars heilbrigðu
eldra fólki og greina samspil þessara þátta.
Efniviður og aðferð: Rannsóknin er þversniðsrannsókn sem byggir á gögnum fyrstu
2300 þátttakenda sem áttu fullgild gögn úr segulómun af heila og taugasálfræðilegri
prófun í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar. Einstaklingar með væga vitræna skerðingu
eða heilabilun voru útilokaðir frá þessari rannsókn. Hvítavefsbreytingar og heiladrep
voru greind með T1, T2 og FLAIR myndaröðum í segulómun (SÓ). Þátttakendum var
skipt í tvo hópa eftir magni hvítavefsbreytinga (litlar og umtalsverðar). Þegar þessir hópar voru skoðaðir án og með heiladrepum urðu til fjórir SÓ-hópar. 1. Litlar hvítavefsbreytingar án heiladreps. 2. Umtalsverðar hvítavefsbreytingar án heiladreps. 3. Litlar hvítavefsbreytingar og í það minnsta eitt heiladrep. 4. Umtalsverðar
hvítavefsbreytingar og í það minnsta eitt heiladrep. Safn taugasálfræðilegra prófa var
notað sem mynduðu þrjá taugasálfræðilega þætti: Hraða/athygli, stýringu og yrt minni.
Auk þessa voru tengsl MMSE prófs og SÓ-hópa skoðuð. Tölfræðilegir útreikningar
byggðu á t-prófi, dreifigreiningu og línulegri aðhvarfsgreiningu fyrir gögn sem
fullnægðu skilyrðum normaldreifingar, annars voru notuð kí-kvaðrat og Mann-Whitney
U próf. Marktækni var miðuð við p < 0,05.
ii
Niðurstöður: Alls voru 1609 þátttakendur sem fullnægðu rannsóknarskilyrðum,
946 konur og 663 karlar, á aldrinum 66-92 ára, meðalaldur var 75,1 (± 5,3) ár.
Hvítavefsbreytingar neðanbarkar greindust í 98,4% kvenna en í 95,8% karla.
Hvítavefsbreytingar jukust með hækkandi aldri, p < 0,001. Aldur skýrir 4,4% af
dreifingu á magni hvítavefsbreytinga. Alls greindust 459 þátttakendur eða 28,5% með í
það minnsta eitt heiladrep, hærra hlutfall karla en kvenna, (35,9% vs. 23,4%). Aldur og
kyn tengjast magni hvítavefsbreytinga, heiladrepum og taugasálfræðilegri frammistöðu
en menntun tengist eingöngu taugasálfræðilegri frammistöðu. Aldur, kyn og menntun
skýrðu mun betur taugasálfræðilega frammistöðu en SÓ-hópar. Af heildarskýringu
líkansins skýrðu þessir þættir mest 23,0% en SÓ-hópar skýrðu mest 1%. Munur var á
taugasálfræðilegri frammistöðu SÓ-hópa á þáttum sem meta hraða/athygli og stýringu
en hvorki á minnisþætti né á MMSE prófi, að teknu tilliti til aldurs, kyns og menntunar.
Ályktun: Hvítavefsbreytingar og heiladrep sem greinast með segulómun hafa lítið
forspárgildi um frammistöðu á taugasálfræðilegum prófum hjá eldra fólki sem telst
annars taugasálfræðilega heilbrigt. Áhrif þessara vefjabreytinga eru merkjanleg á þáttum
sem meta hraða/athygli og stýringu þegar búið er að leiðrétta fyrir aldri, kyni og
menntun. Niðurstöður styðja að það eigi að skoða sameiginleg áhrif hvítavefsbreytinga
og heiladrepa á taugasálfræðilega færni, því það er misjafnt hvort og hvernig þetta
tvennt hefur áhrif á frammistöðu. Ekki er hægt að álykta sem svo að fólk með
hvítavefsbreytingar og heiladrep hafi óhjákvæmilega slaka taugasálfræðilega færni þar
sem þættir eins og menntun, aldur og kyn virðast auka taugasálfræðilegt viðnám heilans
og því getur fólk með umtalsverðar vefjabreytingar viðhaldið taugasálfræðilegri færni.

Samþykkt
13.10.2008


Skrár
NafnRaðanlegtStærðRaðanlegtAðgangurRaðanlegtLýsingRaðanlegtSkráartegund
Adalheidur_Sigfusd... .pdf1,14MBOpinn Heildartexti PDF Skoða/Opna