is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/3766

Titill: 
  • Eignarnámsheimild vegalaga
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Ritgerð þessi fjallar um eignarnámsheimild 37. gr. vegalaga nr. 80/2007. Var sú leið farin, að takmarka efni ritgerðarinnar við eignarnámsheimildina sjálfa, ákvörðunartöku samkvæmt heimildinni og hvernig skilyrði stjórnarskrárinnar um almenningsþörf horfir við henni. Öll umfjöllun um eignarnámsbætur fellur því fyrir utan efni ritgerðarinnar.
    Rétt er að geta þess að lítið hefur verið skrifað um eignarnámsheimild vegalaganna. Þá er dómaframkvæmd einnig af skornum skammti, en eftir nokkuð ítarlega leit í dómasafni Hæstaréttar, fundust einungis nokkrir dómar sem snerta efni ritgerðarinnar með beinum hætti. Þeir dómar sem þó fundust eru að sjálfsögðu notaðir óspart og er rétt að benda sérstaklega á nýfallinn dóm Hæstaréttar, Hrd. 19. mars 2009 (425/2008), sem bæði í héraði og Hæstarétti, tekur á flestum þeim álitaefnum sem að ritgerðinni snúa.
    Byrjað verður á því í öðrum kafla ritgerðarinnar, að fjalla almennt um eðli eignarnámsheimildarinnar, en síðan er saga hennar rakin allt aftur til ársins 1861. Eingöngu er stiklað á stóru í sögu heimildarinnar og því ekki um nákvæma yfirferð yfir öll breytingarlög að ræða. Þá verður fjallað stuttlega um núgildandi heimild og farið yfir þær breytingar sem gerðar voru á eignarnámsheimildinni þegar vegalög nr. 80/2007 voru sett.
    Í kafla þrjú verður fjallað um það skilyrði stjórnarskrárinnar að eignarnámi verði ekki beitt nema almenningsþörf standi til þess. Byrjað verður á því að fjalla almennt um hvað felst í þessu skilyrði en síðan farið yfir það hvernig matið á því, hvort þetta skilyrði telst uppfyllt, skiptist á milli löggjafans og vegagerðarinnar. Verður fyrst fjallað um þá þætti sem heyra undir löggjafann að meta en síðan vikið að þeim þáttum sem Vegagerðinni er eftirlátið mat á. Verður í báðum tilvikum vikið nokkuð að endurskoðun dómstóla á því mati og kemur áðurnefndur Hrd. 19. mars 2009 (425/2008) þar talsvert við sögu.
    Í kafla fjögur er svo fjallað um eignarnámsákvörðunin sjálfa. Byrjað er á því að skilgreina ákvörðun um eignarnám, samkvæmt eignarnámsheimild vegalaganna, sem stjórnvaldsákvörðun. Þá er farið yfir fjórar af þeim reglum stjórnsýslulaganna, sem helst verður að telja að setji eignarnámi Vegagerðarinnar skorður. Er þar um að ræða rannsóknarregluna, jafnræðisregluna, meðalhófsregluna og andmælaregluna. Þá verður fjallað stuttlega um það álitaefni, hver innan Vegagerðarinnar taki eignarnámsákvörðunina sjálfa. Að endingu verður svo fjallað um þá almennu kröfu, að ákvörðun um eignarnám samkvæmt eignarnámsheimild vegalaganna sé skýr. Dómar verða reifaðir í þessum kafla eftir því sem við á. Að lokum er svo stutt samantekt í fimmta kafla ritgerðarinnar.

Samþykkt: 
  • 5.6.2009
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/3766


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Teitur_Mar_Sveinsson_fixed.pdf290.28 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna