is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskólinn á Akureyri > Hug- og félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/4092

Titill: 
  • "Það byggir nú fyrst og fremst á trausti" - Hlutverk forystuhæfni í þróunarstarfi skóla
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Markmið þessarar rannsóknar var að rannsaka samhengið milli forystu og forystuhæfni annars vegar og þróunarferlis skóla hins vegar og skýra betur hvaða leiðir má fara til að bæta árangur af skólaþróun. Í því skyni var litið til þess hvernig og að hvaða marki forystuhæfni hefur verið byggð upp samfara jákvæðri skólaþróun í einum grunnskóla á Íslandi. Hugtakalíkön Lambert (2003a, 2006) af forystuhæfni skóla eru notuð sem hugtakagrunnur rannsóknarinnar og forystuhegðun skólastjórans í skólaþróunarferlinu og forystuhæfni hópa innan skólasamfélagsins; kennara, annars starfsfólks, nemenda og foreldra sem og skólans í heild, metin út frá þeim. Kenningar Lambert fela í sér að mikilvægt sé að allir innan skólasamfélagsins þrói með sér forystueiginleika þar sem forysta felist í gagnkvæmu stefnuföstu námi innan skólasamfélags. Litið er svo á að forysuthegðun og persónulegir eiginleikar skólastjórans séu grundvöllur þess að slík forystuhæfni skóla þróist. Um leið felst í forystuhæfni sýn á skólaþróun þar sem litið er svo á að forystuhæfni skólans sé grundvöllur varanlegs árangurs í skólaþróun.
    Rannsóknin var eigindleg tilviksrannsókn og valinn var grunnskóli sem féll að markmiðum rannsóknarinnar. Gögnum var safnað sem miðuðu að því að varpa ljósi á skólaþróun skólans á því tímabili sem liðið hefur síðan skilgreind skólaþróun hófst og fram til dagsins í dag. Var það gert með hálf-formgerðum viðtölum, vettvangsathugunum, spurningakönnun og skoðun gagna. Þátttakendur sem taldir voru líklegir til að dýpka skilning á viðfangsefninu voru valdir úr breiðum hópi skólasamfélagsins.
    Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að í þróun forystuhæfni skólans sé komin nokkuð langt á veg en að forystuhæfni sé misjöfn meðal hópa innan skólasamfélagsins og forysta mismikil meðal einstaklinga og að þann mismun megi að einhverju leyti skýra með misjafnlega mikilli þátttöku einstaklinga og hópa í þróunarferlinu. Niðurstöður benda einnig til þess að forystuhegðun og persónulegir eiginleikar, þekking og færni skólastjórans hafi skipt sköpum í því að byggja upp forystuhæfni skólans og að skólastjórinn búi yfir þeim eiginleikum sem til þarf og hafi beitt sér í samræmi við það. Skólastjóri, ásamt öðrum stjórnendum, setur skýran ramma um skólastarfið sem felst í sameiginlegri menningu og sýn og stefnu byggðri á trausti, virðingu og sameiginlegum gildum en innan þess ramma hefur starfsfólk og nemendur frelsi til að starfa og hafa áhrif á starf sitt og starfsumhverfi. Í skólanum er dreifð forysta og kennarar og stjórnendur starfa af metnaði og áhuga. Meðal stjórnenda, kennara og nemenda fer fram sameiginlegt nám í formi markvissra umræðna og þróunarvinnu. Forystuhæfni er mikil meðal stjórnenda, töluverð meðal kennara og nemenda en minni meðal skólaliða og foreldra. Niðurstöður benda til þess að það stafi af því að skólaliðar og foreldrar hafa ekki verið þátttakendur í skólaþróuninni á sama hátt og stjórnendur, kennarar og nemendur. Til þess að viðhalda og þróa enn forystuhæfni skólans þarf að skýra markmið hvað varðar forystu kennara og nemenda og skapa starfsumhverfi þar sem skólaliðar og foreldrar hafa sömu tækifæri og aðrir til að þróa forystuhæfni sína.
    Rannsóknin var gerð í einum skóla og því ekki hægt að alhæfa um niðurstöður hennar. Þess er þó vænst að með rannsókninni skýrist frekar tengsl forystu skólastjóra og annarra hópa skólasamfélagsins og skólaþróunar við íslenskar aðstæður og hvaða leiðir megi fara til að bæta árangur í íslensku skólastarfi. Niðurstöður rannsóknarinnar eru mjög í samræmi við niðurstöður erlenda rannsókna sem gefur vísbendingu um að þær eigi einnig við hér á landi.

Samþykkt: 
  • 4.11.2009
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/4092


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Master-26-april-2010SMS.pdf882.95 kBOpinnPDFSkoða/Opna