is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/4370

Titill: 
  • Lúthermyndir og íslensk aldamótaguðfræði. Magnús Jónsson og Lúthermynd hans
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Áhugi manna á túlkunarsögu Lúthers hefur farið vaxandi á síðustu árum. Rannsóknir á því hvernig Lúther og guðfræði hans er samofin vissum tímabilum, straumum og stefnum, hefur öðlast sjálfstætt gildi innan fræðanna. Gjarnan er rætt um Lúthermyndir í þessu sambandi. Hvert tímabil virðist eiga sér sinn Lúther þar sem menn draga fram þá þætti í mynd hans sem endurspegla áherslur samtímans hvað best. Lúthermyndir geta þó verið tvíeggjað sverð. Hættan er sú að þær stirðni upp og leiði til stöðnunar. Uppgjör verður óumflýjanlegt. Ef litið er til sögu Lútherstúlkunar má sjá hvernig róttæk áherslubreyting verður á henni öðru hverju.
    Umfjöllun um Lúther á Íslandi var hvorki umfangsmikil né margbreytileg fram til loka 19. aldar. Upp úr aldamótum 1900 varð þó breyting þar á. Rekja má þann fjörkipp til áhrifa aldamótaguðfræðinnar eða „nýju guðfræðinnar“ svokölluðu, frjálslyndrar guðfræðistefnu sem í æ ríkari mæli setti mark sitt á íslenskt trúarlíf fyrstu áratugi 20. aldar. Eitt af megin einkennum frjálslyndu guðfræðinnar var hin svokallaða „biblíugagnrýni“ sem grundvallaðist á aðferðum sögugagnrýninnar og hlutlausum athugunum í anda vísindahyggjunnar. Hin nýja nálgun olli straumhvörfum í Lúthersrannsóknum. Athygli frjálslyndra guðfræðinga beindist í auknum mæli að Lúther og verkum hans. Lúthersrannsóknir voru taldar mikilvægur þáttur í leitinni að kjarna kristindómsins sem var eitt meginmarkmið frjálslyndu guðfræðinnar.
    Árið 1917 kom út í Reykjavík ritið Marteinn Lúther. Æfisaga eftir Magnús Jónsson prest á Ísafirði og síðar prófessor við guðfræðideild, ráðherra og þingmaður í Reykjavík. Sama ár kom út þriðja bindi kristnisögu Jóns Helgasonar, lærimeistara Magnúsar og meginboðbera frjálslyndu guðfræðinnar á Íslandi. Í henni er að finna greinagóða umfjöllun um aðdraganda siðbótarinnar, ævi og störf Lúthers og útbreiðslu siðbótarinnar. Ljóst er að Lúther lék stórt hlutverk í útgáfumálum landsmanna þetta ár.
    Um þessar mundir var sjálfstæðisbarátta Íslendinga einnig háð af miklum krafti. Árið 1918, eða ári eftir að rit Magnúsar kom út fengu Íslendingar fullveldi. Virtist sem þjóðernislegar frelsishugsjónir sjálfstæðisbaráttunnar og hin frjálslynda guðfræðistefna féllu einkar vel saman.
    Við lestur rits Magnúsar vakna upp áleitnar spurningar um ástæður þess að ungur prestur á Ísafirði tekst á hendur það metnaðarfulla verk, að skrifa ævisögu siðbótarmannsins. Ekki síst er það athyglisvert í ljósi þess að þá þegar lá fyrir all ítarleg ævisaga Lúthers á íslensku eftir Helga Hálfdánarson, prestaskólakennara, einn af burðarásum íslensks kirkjulífs í lok 19. aldar. Virðist margt benda til þess að rit Magnúsar endurspegli á ýmsan hátt það uppgjör sem átti sér stað milli gamla tímans og hins nýja á Íslandi í upphafi 20. aldar.
    Í þessari ritgerð er leitast við að sýna fram á að svör við ofangreindum álitamálum sé að einhverju leyti að finna í þeirri Lúthermynd þjóðlegrar frjálslyndrar guðfræði sem Magnús dregur fram í riti sínu. Því er leitast við að varpa ljósi á þá mynd. Er það gert annars vegar með því að staðsetja Magnús og rit hans í sögulegu og guðfræðilegu samhengi og hins vegar með því að tengja þá umfjöllun við túlkunarsögu Lúthers.

Samþykkt: 
  • 27.1.2010
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/4370


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Final_fixed.pdf753.82 kBLokaðurHeildartextiPDF