is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/4577

Titill: 
  • Hvað getur skólinn gert meira? : lífssögurannsókn með ungu fólki sem hefur átt erfitt uppdráttar í grunnskóla
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Viðfangsefni rannsóknarinnar sem hér er til umfjöllunar er lífssögur nemenda sem hafa átt erfitt uppdráttar í skóla og jafnvel verið merktir með hegðunar- og/eða tilfinningaerfiðleika. Rannsóknin er eigindleg lífssögurannsókn og byggir á opnum viðtölum við þátttakendur. Talað er við fjögur ungmenni, þrjár stúlkur og einn dreng sem öll áttu það sameiginlegt að hafa átt erfitt í grunnskóla ýmist vegna hegðunar og/eða tilfinninga sinna. Á undanförnum árum hefur sýnin á börn verið að taka breytingum og farið er að líta á þau sem virka gerendur. Réttur barna til að hafa áhrif á eigið nám er einnig að aukast en skólinn starfar í dag eftir stefnu um skóla án aðgreiningar þar sem áhersla er lögð á að mæta nemendum á einstaklingsgrundvelli í kennslu. Nemendur sem merktir hafa verið með hegðunar- og/eða tilfinningaerfiðleika hafa hins vegar átt erfitt uppdráttar í almennum skólum og með áherslu á einstaklingsmiðaða kennslu hefur staða þeirra ekki batnað. Samkvæmt sjónarmiðum táknbundinnar samskiptahyggju þróast sjálfsmynd einstaklinga í samskiptum við aðra. Börn verja stórum hluta daga sinna í skólanum og því hefur það sem þar gerist mótandi áhrif á hvernig þau sjá sig sjálf.
    Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á upplifun þátttakenda af skólagöngu sinni með áherslu á frásögn þeirra, tjáningu og túlkun. Leitast var við að fá meðal annars innsýn í líðan þeirra og upplifun af viðbrögðum skólans við vanda þeirra. Lífssögurannsóknir beina sýn sinni að reynslu einstaklinga og tilgangur þeirra er að draga fram þá merkingu sem reynslan hafði fyrir þá.
    Niðurstöður gefa til kynna að ýmsir þættir innan skólans hafi áhrif á líðan nemenda, hegðun og mótun sjálfsmyndar þeirra. Til að mynda upplifðu allir þátttakendur rannsóknarinnar neikvætt viðmót frá kennurum sem hafði áhrif á líðan þeirra. Einnig kom fram að námið var ekki nægilega merkingarbært eða sniðið að þeirra þörfum þar sem mikil áhersla var á bóklegt nám. Úrræði og íhlutun skólans einkenndist oft af þeirri sýn að vandinn byggi í einstaklingnum og lítið var gert í þeim tilgangi að aðlaga umhverfið að þörfum viðmælenda minna. Úrlausnir skólans fólust í því að þeir voru fjarlægðir úr almennum bekkjum og ýmist komið fyrir í sérkennslu eða úrræðum utan skólans. Það er hins vegar athyglisvert að þrátt fyrir erfiða upplifun flestra hafði aðeins einn þátttakandi neikvætt viðhorf til skólagöngu sinnar.
    Í ritgerðinni er fjallað um þessa þætti og rætt um leiðir sem gera starfsfólki skóla fært að mæta þörfum nemenda, sem merktir hafa verið með hegðunar- og/eða tilfinningaerfiðleika, enn betur en áður.
    Lykilorð: Nemendur sem eiga erfitt, samvinna heimilis og skóla,hegðunar- og tilfinningaerfiðleikar, merking.

Samþykkt: 
  • 23.3.2010
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/4577


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
2009_fixed.pdf704.29 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna