is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/4631

Titill: 
  • Hvenær er miðilsstarfsemi refsiverð?
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Í þessari ritgerð verður fjallað um það hvenær miðilsstarfsemi er refsiverð. Orðið
    miðilsstarfsemi verður látið ná yfir alla þá háttsemi þegar einstaklingur eða einstaklingar telja
    sig vera í sambandi við framliðna, og annar einstaklingur eða einstaklingar greiða fyrir
    þjónustu þeirra. Ekki verður gerður greinarmunur á handayfirlagningu, skyggnilýsingum,
    miðilsfundum o.s.frv. heldur verður þetta allt einfaldlega kallað miðilsstarfsemi.
    Frá því byggð var stofnuð á Íslandi hefur miðilsstarfsemi af ýmsu tagi verið rekin hér. Ekki
    er hægt að fullyrða að í öllum tilvikum hafi slík starfsemi verið ólögleg en ljóst er að oft eru brögð í tafli. Ef upp komast svik í miðilsstarfsemi á háttsemin undir 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.1 Þetta ákvæði er í daglegu tali kallað fjársvikaákvæðið. Einnig getur háttsemin fallið undir læknalög nr. 53/1988. Í þessari ritgerð verður farið yfir þau lög
    sem helst reynir á við brot í miðilsstarfsemi. Í kafla 2.1 verður farið ítarlega yfir 248. gr. hgl.
    og þættir þess ákvæðis brotnir til mergjar. Í kafla 2.2 verður farið yfir læknalög nr. 53/1988 og einstök ákvæði þeirra laga. Það sem á aðallega við í refsiverðri miðilsstarfsemi er 22. gr.
    nefndra laga. Í 3. kafla verður farið yfir dóma þar sem miðlar hafa verið ákærðir og að lokum verður í 4. kafla gerður greinarmunur á refsiverðri og löglegri miðilsstarfsemi.
    Sitt sýnist hverjum um hagnýtt gildi miðilsstarfsemi. Margir telja að um hugarburð sé að ræða þegar miðlar halda því fram að þeir séu í tengslum við framliðna. Ekkert verður hér fullyrt um hvort um raunveruleika eða ímyndun sé að ræða, en þó skal bent á að starf miðla er
    verndað af atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.2
    Ákveðnir þættir verða að vera fyrir hendi til þess að miðillinn hafi gerst sekur við annaðhvort 248. gr. hgl. eða læknalög nr. 53/1988 og eftir atvikum bæði. Verður hér að neðan gerð eftir fremsta megni grein fyrir þessum þáttum. Markmið ritgerðarinnar er að gera skýrlega grein fyrir því hvað það er sem gerir miðilinn sekan eða eftir atvikum saklausan. Þetta verður gert
    með því að skyggnast inn í lög og dómaframkvæmd. Persónuleg skoðun lesanda á því hvort ákveðnir aðilar geti verið gæddir þeim hæfileikum að eiga samskipti við framliðna á hér ekki að skipta máli og ekki verður heldur tekin afstaða til þess af hálfu höfundar.
    Miðillinn getur eftir atvikum gerst sekur við læknalög nr. 53/1988, sem kölluð eru í
    daglegu tali læknalög. Hér er aðallega um að ræða skottulækningaákvæðin í 22. og 23. gr. en einnig ákvæði 1. gr. sem mælir fyrir um hverjir megi kalla sig lækna. Í tveimur dómanna sem raktir verða í 3. kafla lýtur ákæran m.a. að broti á læknalögum. Til þess að átta sig betur á ákvæðunum sem um ræðir eru þeim gerð skil í kafla 2.2.
    Í 257. gr. almennra hegningarlaga handa Íslandi frá 1869 var að finna ákvæði sem mælti fyrir um bann við því að hafa af fólki fé með miðilsstarfsemi. Það ákvæði var svohljóðandi :
    ■ 257. gr. Hegningu þeirri, sem sett er í 253. gr., skal sömuleiðis hver sá sæta, sem hefir svik í frammi í spilum, og eins sá, sem hefir af manni peninga eða fjármuni með signingum, þulum, særingum, spám eða fyr r önnur slík hindurvitni.
    Þarna virðist lagt blátt bann við hvers konar miðilsstarfsemi, enda voru mannréttindi ekki í hávegum höfð á þessum tíma. Nú til dags er frelsi einstaklingsins hins vegar rýmra og mega menn því stunda miðilsstarfsemi svo lengi sem háttsemi þeirra brýtur ekki í bága við lög.

Samþykkt: 
  • 14.4.2010
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/4631


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
ritgerð_Haukur.pdf353.87 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna