is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/4935

Titill: 
  • Misnotkun á markaðsráðandi stöðu með hagnýtingu hugverkaréttinda
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Markmið samkeppnisréttar og hugverkaréttar eru í meginatriðum þau sömu; að stuðla að hagsmunum almennings. Bæði réttarsviðin hvetja til nýsköpunar hvort með sínum hætti. Nýsköpun felur í sér betri vörur, meira vöruúrval og mögulega lægra verð til hagsbóta fyrir neytendur. Hugverkaréttur á almennt að vera nægur, einn og sér, til að ná jafnvægi milli einkaréttar eiganda hugverkaréttinda og samkeppni en í óvenjulegum aðstæðum nær hugverkaréttur ekki tilgangi sínum og getur þá hindrað nýsköpun í stað þess að skapa hana. Við þessar aðstæður eru samkeppnislög hentug til að leiðrétta það ójafnvægi sem myndast hefur.
    Á markaðsráðandi fyrirtækjum hvíla sérstakar skyldur til að aðhafast ekkert sem leiðir til þess að samkeppni skerðist. Markaðsráðandi fyrirtæki mega þó taka þátt í samkeppni og keppa á grundvelli rekstrarlegrar frammistöðu. Slík fyrirtæki, líkt og önnur, mega afla sér hugverkaréttinda yfir hugverki sínu og nýta sér réttindin til að keppa við önnur fyrirtæki, jafnvel þótt slíkt geti takmarkað möguleika keppinauta þar sem það leiðir venjulega til hagsbóta fyrir neytendur til lengri tíma. Af réttarframkvæmd má þó sjá að markaðsráðandi fyrirtæki geta misnotað stöðu sína með hagnýtingu hugverkaréttinda þegar ákveðnar aðstæður eru fyrir hendi á markaði. Dæmi um mögulega misnotkun af þessu tagi er t.a.m. þegar markaðsráðandi fyrirtæki synjar þriðja aðila um nytjaleyfi, en skörunin á milli einkaréttar eiganda hugverkaréttinda og þeirra krafa sem samkeppnisreglur gera til markaðsráðandi fyrirtækja er mest í slíkum tilvikum. Einnig hefur verið talið um misnotkun að ræða þegar fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu aflar sér hugverkaréttinda frá keppinaut, nýtir sér reglur eða stjórnsýslu hugverkaréttinda til að öðlast viðbótarvernd fyrir hugverk sitt eða krefst of hárrar þóknunar fyrir nytjaleyfi sitt. Framferði af þessu tagi telst þó ekki til misnotkunar eitt og sér. Af dómaframkvæmd má sjá að skoða þarf aðstæður á markaði hverju sinni og sérstaklega hver áhrif verða á samkeppni áður en hægt er að skera úr um hvort um misnotkun sé að ræða í þessum tilvikum. Möguleg misnotkun getur einnig komið til skoðunar vegna framferðis höfundarréttarsamtaka. Þær almennu reglur sem myndast hafa í dómaframkvæmd um misnotkun markaðsráðandi fyrirtækja á stöðu sinni eiga ekki sjálfkrafa við um höfundarréttarsamtök. Líta þarf til markmiðs höfundarréttarsamtaka og til framferðis þeirra í samhengi við aðstæður hverju sinni áður en hægt er að segja til um hvort þau hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína.
    Um flókið álitaefni er að ræða sem erfitt er að gera skýrt. Í dómaframkvæmd hafa þó myndast ákveðnar meginreglur sem horfa ber til áður en ákvörðun er tekin. Þessar meginreglur hafa í för með sér að mikil athugun þarf að fara fram á viðkomandi markaði áður en hægt er að segja til um hvort fyrirtæki hafi misnotað markaðsráðandi stöðu. Því er nánast ómögulegt fyrir markaðsráðandi fyrirtæki að vita hvort þau séu að misnota markaðsráðandi stöðu sína þegar þau hagnýta hugverkaréttindi sín. Verður að telja að æskilegt væri að ákveðið réttaröryggi ríkti, sérstaklega þar sem fyrirtæki geta þurft að sæta háum sektum. Ávallt mun þó einhver óvissa ríkja á þessu sviði, þar sem staðan er sú að hvert mál hefur sína sérstöku eiginleika sem líta verður til áður en hægt er að taka ákvörðun, auk þess sem ólíklegt er að nákvæmlega eins mál komi til skoðunar síðar. Ljóst er að samkeppnisyfirvöld og dómstólar verða að starfa með sérstakri varúð, sér í lagi þar sem ekki er enn komið í ljós hver framtíðaráhrifin verða. Hætta er á því að ef samkeppnislög fara að ganga of langt inn á vernd hugverkaréttar muni hvati til nýsköpunar minnka og þar af leiðandi hafa neikvæðar afleiðingar á samkeppni í för með sér. Ef raunin verður sú er markmið beggja réttarsviðanna ekki lengur fyrir hendi.

Samþykkt: 
  • 5.5.2010
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/4935


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Misnotkun á markaðsráðandi stöðu með hagnýtingu hugverkaréttinda.pdf657.77 kBLokaðurHeildartextiPDF