is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/4939

Titill: 
  • Árekstrarregla 89. gr. umferðarlaga nr. 50/1987
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Árekstrarregla 89. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 lýtur að skiptingu tjóns þegar skráningarskyld vélknúin ökutæki lenda í árekstri. Árekstrarreglan er hluti af skaðabótareglum umfl. ásamt hinni hlutlægu ábyrgðarreglu 88. gr. Að auki gilda almennar reglur skaðabótaréttar um ábyrgð eftir umfl.
    Árekstrarreglan byggir á sakarreglunni og ræður sök aðila skiptingu ábyrgðar á því tjóni sem verður þegar ökutæki lenda í árekstri. Reglan er takmörkuð við skráningarskyld vélknúin ökutæki og er það skráður eða skráningarskyldur eigandi sem ber ábyrgð eftir reglunni. Þegar skráning sker ekki úr um hver sé eigandi er það á endanum er það raunverulegur eigandi ökutækis eða sá sem hefur varanleg umráð yfir ökutæki sem ber ábyrgð sbr. 1. mgr. 90. gr. umfl. Það er eiganda, að hlutast til um að skrá ökutæki sitt og afla vátrygginga.
    Árekstrarregla 89. gr. umfl. á uppruna sinn að rekja til norræns réttar líkt og á við um flestar aðrar reglur umfl. Réttarstaðan í Noregi og Danmörku er svipuð og hér. Þótt uppbygging ábyrgðarreglnanna sé með öðrum hætti þar er inntak reglnanna svipað, en í Noregi er þó sjálft árekstrarhugtakið skýrt öllu rýmra en tíðkast hér og hefur það verið talið ná til þess tilviks þegar steinn kastast undan hjólum ökutækis og lendir á öðru ökutæki.
    Við beitingu árekstrarreglunnar ræður sök þeirra sem ökutækjunum stjórna, skiptingu skaðabótaábyrgðar og ekki skiptir máli fyrir ábyrgð eiganda, hvort eigandi sjálfur eða annar maður hafi stjórnað ökutækinu þegar árekstur varð enda er eigandi ökutækis samsamaður ökumanni.
    Við sakarmatið sjálft, er litið til þeirra hátternisreglna sem eru að finna í umfl. og reglum sem tengjast þeim. Mörg sjónarmið liggja að baki sakarskiptingu í árekstrarmálum eins og sjá má af dómaframkvæmd en fyrst og fremst eru það hlutlæg sjónarmið sem ráða við sakarmatið, ekki fjárhagur aðila eða aðstæður. Viðmiðunarreglur vátryggingarfélaganna hafa mikið leiðbeiningargildi við sakarskiptingu enda eru þær byggðar á dómum og venjum í þessum málum. Þær reglur eru þó ekki einhlítar enda hægt að draga mörg sjónarmið inn í sakarmatið og því nánast ógerningur er að setja fram almennar og hlutlægar reglur um sakarskiptingu.
    Reglur um sönnunarbyrði skipta miklu máli við sakarmatið en þær geta verið mismunandi eftir því hvernig atvikum máls er háttað. Dómstólar hafa skapað reglur um sönnunarbyrði sem beitt er eins í svipuðum málum. Það er mismunandi eftir því hvaða reglur umfl. eiga í hlut, á hvern ökumann hallar meira við sakarskiptingu. Sá aðili að árekstri ber oftar sönnunarbyrðina, sem gerst hefur brotlegur við mikilvægari ákvæði umfl., sbr. þá reglu um að ökumaður á aðalbraut þurfi ekki að sanna að hann hafi ekið á löglegum hraða.
    Í langflestum tilvikum er ágreiningur um skiptingu sakar í árekstrarmálum leiddur til lykta hjá tryggingafélögunum sjálfum eða hjá þeim úrlausnaraðilum sem mönnum standa til boða utan dómstólanna, s.s. tjónanefnda vátryggingarfélaganna o.s.frv. enda málsmeðferðin þar skjót.
    Þau sönnunargögn sem lögð eru til grundvallar við úrlausn árekstrarmála eru margvísleg. Virðist sem svo að sönnunargögn sem lögreglumenn afla á vettvangi hafa mikið vægi. Einnig má ráða af þeim dómum sem reifaðir voru að mikið virðist lagt upp úr framburði ökumanna og annarra vitna þegar ekkert mælir því gegn.
    Vátryggingar, hvort sem þær eru lögbundnar eða ekki taka til þess tjóns sem verður við árekstur eða notkun ökutækis. Mikilvægi þeirra endurspeglast í þeim háu skaðabótakröfum sem hafðar eru uppi í árekstrarmálum.

Samþykkt: 
  • 5.5.2010
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/4939


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Arekstrarregla umferdarlaga.pdf917.93 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna