is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/5607

Titill: 
  • Frá Barnes-stofnun til Parísar: Mótunarár Kristjáns Davíðssonar, 1938-1950
Titill: 
  • Valin listaverk frá 1938-1950 skoðuð í innlendu og alþjóðlegu samhengi.
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Ritgerð þessi fjallar um verk íslenska myndlistarmannsins Kristjáns Davíðssonar en þau verk sem hér hafa verið valin til umfjöllunar eru frá árunum 1938 til 1950. Farið er yfir fyrstu kynni hans af málaralist og reifuð áhrif tíðarandans og kennslu myndlistarmannanna Finns Jónssonar og Jóhanns Briem á Kristján.
    Dvöl Kristjáns við hina nafntoguðu Barnes-stofnun í Fíladelfíu í Bandaríkjunum er rakin og rýnt er sérstaklega í kennsluhættina og hugmyndafræðina sem nemendum skólans var ætlað að tileinka sér. Í því samhengi er litið á hugmyndir Johns Dewey um fagurfræði en hann var einn af þeim heimspekingum sem Kristján vildi kynna sér og hafði verið viðriðinn Barnes-stofnunina. Kristján fékk tækifæri til að kynnast stórri safneign Alberts C. Barnes, auk þess sem hann fræddist um nýja nálgun á því hvernig hægt er að horfa á list. Námið við Barnes-stofnunina var ekki hefðbundið myndlistarnám heldur fremur byggt upp á listfræði og heimspekilegum grunni. Mikið var lagt upp úr sjónmenntun nemenda og umgengust þeir daglega verk eftir marga helstu meistara nútímamyndlistar, á borð við Matisse, Cézanne, Renoir, Picasso, Modigliani og Soutine. Á meðan á dvöl Kristjáns í Bandaríkjunum stóð fór hann einnig á listasöfn í New York og hafði því öðlast kynni af heimslistinni þegar hann sneri aftur heim til Íslands.
    Kristján tók þátt í svokölluðum Septembersýningum í Reykjavík sem hófu göngu sína í lok fimmta áratugarins. Hópur listamanna lagði þar meðal annars áherslu á að listaverkið skapaði nýjan og sjálfstæðan veruleika og er í þessu samhengi skoðað í hvaða mæli hugmyndir Kristjáns samræmdust viðhorfum annarra þátttakenda.
    Í ritgerðinni eru málverk Kristjáns kynnt og eru þau gjarnan borin saman við verk erlendra listamanna sem honum hafa þótt áhugaverðir. Þessir listamenn eiga það flestir sameiginlegt að hafa verið umdeildir en síðar vakið mikla aðdáun. Má þar meðal annars nefna þá Picasso, Matisse og Klee. Kristján hefur ávallt verið samkvæmur sjálfum sér og nýtt sér það sem hefur hentað hverju sinni, eftir því hvert andinn hefur leitt pensilinn. Snemma birtist hjá honum næmni á litasamsetningu og áræðni í blöndun lita. Lengi vel var hann umdeildur og vakti gjarnan hneykslun sýningargesta hér á landi. Í dag telst hann hins vegar til hinna stóru í myndlist okkar, hvort sem litið er til eldri verka eða nýrri.

Samþykkt: 
  • 11.6.2010
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/5607


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Silja-Malverk.pdf21.93 MBOpinnMálverk myndirPDFSkoða/Opna
Silja-Malverk.pdf5.83 MBOpinnMálverk, myndir og textiPDFSkoða/Opna
Silja-Samantekt.pdf5.87 kBOpinnSamantektPDFSkoða/Opna
Texti og myndir_KD.pdf15.21 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna