is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskólinn á Akureyri > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/5636

Titill: 
  • Virðing skal borin fyrir öldruðum jafnt í lögum sem lífi : um siðferðileg réttindi aldraðra sem tengjast híbýli og heimili, frá sjónarhóli aldraðra og aðstandenda aldraðra
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Bakgrunnur rannsóknar. Allt bendir til þess að öldruðum muni fjölga hér á landi á næstu áratugum og því er mikilvægt að rannsaka siðferðileg réttindi þeirra sem tengjast híbýli og heimili og mikilvægt er að gera það meðal annars frá sjónarhóli aldraðra sjálfra og aðstandenda þeirra.
    Tilgangur. Aðaltilgangur þessarar rannsóknar var að skoða hver siðferðileg réttindi aldraðs fólks eru, hvort sem þeir eru heimabúandi eða komnir á hjúkrunarheimili. Fyrst er vert að spyrja hvað eru siðferðileg réttindi? Höfundur álítur að það sé meðal annars sjálfræði, sjálfsákvörðunarréttur og virðing fyrir vilja fólks. Leitað var svara við rannsóknarspurningunni „Hver eru siðferðileg réttindi aldraðs fólks sem tengjast híbýli og heimili frá sjónarhóli aldraðra og aðstandenda aldraðra? “
    Aðferð. Í þessari rannsókn var notuð rannsóknaraðferð Vancouver-skólans í fyrirbærafræði en það er eigindleg rannsóknaraðferð. Gagnasöfnun fór fram í rýnihópum. Niðurstöður byggðust annars vegar á samtölum við 20 aldraða einstaklinga sem bjuggu heima. Fólkið var á aldrinum 76 – 91 árs, þrír karlar og sautján konur sem bjuggu í Reykjavík og á Akureyri. Hins vegar var rætt við aðstandendur aldraðra sem lentu í óvelkomnum flutningi með litlum fyrirvara frá einum stað í annan. Þeir voru sex talsins á aldrinum 50–69 ára. Til að vernda þátttakendur verða staðir ekki nafngreindir.
    Niðurstöður. Í þessari rannsókn mátu aldraðir siðferðileg réttindi sín, á heimili sínu, í aðdraganda flutnings á hjúkrunarheimili og á hjúkrunarheimili. Helstu niðurstöður voru þær að aldraðir vilja hafa rétt til að búa sem lengst á eigin heimili með aðstoð sem þeir þarfnast þegar þeir þarfnast hennar. Að þeir hafi rétt til að komast á hjúkrunarheimili þegar þörf krefur og þurfi ekki að glíma við óöryggi, kvíða og álag vegna langrar biðar.
    Þegar til vistunar kemur á hjúkrunarheimili vildu þeir eiga rétt á að búa í einbýli með sína hluti hjá sér svo þeir geti skapað sér nýtt heimili. Þeir vildu hafa rétt til að hjúkrunarheimilið sé heimilislegt og skapi með þeim öryggi og samkennd. Þeir vildu hafa rétt til að fá að ráða daglegu lífi sínu þar, innan þess ramma sem venjulega er á heimilum. Ef þeir þyrftu að flytja í annan stað, sem þeir töldu algjört neyðarúrræði þá vildu þeir að við þá sé haft samráð, að þeir fái góðan aðlögunartíma og að þeir hafi val um stað. Þurfi til flutnings að koma finnst öllum viðmælendum að flutningurinn skuli vera vel undirbúinn með góðum fyrirvara og að þeir fengju helst að skoða staðinn eða að minnsta kosti að fá um hann upplýsingar.
    Aðstandendur vildu eindregið ef til flutnings þyrfti að koma milli hjúkrunarheimila að þeir og ástvinir þeirra hafi rétt til að vera með í ákvarðanatöku varðandi val um nýjan stað. Einnig að gefinn sé rúmur tími til flutnings og að fólkið þeirra hafi rétt til að búa á einbýli með sína hluti í kringum sig.
    Helstu ályktanir. Þátttakendur greindu frá þeim siðferðilegu réttindum sem þeir töldu að þeir ættu rétt á og sem augljóslega ættu að vera virt en eru það því miður ekki að öllu leyti. Ályktanir sem draga má af þessari rannsókn eru þær helstar að virða skal mannréttindi sem sett hafa verið í lög, reglugerðir og megingildi stofnana. Það er afar brýnt að haft sé samráð við hina öldruðu og aðstandendur þeirra og að virt séu siðferðileg réttindi þeirra. Flutningar sem eru lítt undirbúnir, framkvæmdir með stuttum fyrirvara og ekki í samráði við þá sem hlut eiga að máli eru líklegir til að valda óánægju, óöryggi og ógna heilsu þeirra skjólstæðinga sem fluttir eru á milli hjúkrunarheimila. Það fyrirkomulag sem nú er við lýði í þjónustu við aldrað fólk eflir ekki sjálfsákvörðunarrétt eða sjálfstæði aldraðs fólks.

Styrktaraðili: 
  • Félag hjúkrunarfræðinga
Athugasemdir: 
  • Verkefnið er lokað til júlí 2011
Samþykkt: 
  • 18.6.2010
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/5636


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Valgerður Jónsdóttir.pdf1.91 MBOpinnUm siðferðileg réttindi aldraðra sem tengjast híbýli og heimili, frá sjónarhóli aldraðra og aðstandenda aldraðra.PDFSkoða/Opna