is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/5670

Titill: 
  • Mentor í grunnskólum : þróun og innleiðing á Námsframvindu, nýrri einingu til að efla faglegt starf kennara
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Markmið rannsóknarinnar var að skoða notkun á Mentor og fylgjast með innleiðingu og notkun á nýrri einingu í Mentor sem nefnist Námsframvinda. Námsframvindu er ætlað að efla faglegt starf grunnskólakennara og styrkja einstaklingsmiðað nám. Grunnur að rannsókninni eru fræði um einstaklingsmiðað nám þar sem kennarar reyna að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda. Þá er einnig skoðuð áhrif nýjunga í skólastarfi og það ferli sem á sér stað við innleiðingu þeirra.
    Um var að ræða starfendarannsókn í einum af grunnskólum Reykjavíkur. Haldnir voru fundir, kynningar, námskeið og útbúin kennslugögn fyrir starfsmenn skólans og kynningarbæklingur var afhentur foreldrum. Gögnum var safnað bæði með eigindlegum og megindlegum aðferðum. Viðtöl voru tekin við stjórnendur, stýrihóp og nemendur innan skólans og spurningakannanir voru lagðar fyrir kennara annars vegar og foreldra nemenda hins vegar.
    Almennt viðhorf þátttakenda til Mentors var skoðað en athyglinni var sérstaklega beint að viðbrögðum gagnvart Námsframvindunni. Hvaða væntingar væru gerðar til hennar af stjórnendum, kennurum, nemendum og foreldrum og hvernig hún væri að gagnast þeim. Síðan var fylgst með innleiðingu Námsframvindunnar og metið hvernig mætti bæta það ferli.
    Niðurstöður leiddu í ljós almenna ánægju meðal kennara og foreldra með Mentor. Notkun kennara hefur aukist frá fyrra skólaári og þeir eru farnir að nýta sér marga eiginleika kerfisins. Sama má segja um foreldra en þeir gagnrýna helst að Mentor sé ekki nýttur nægilega mikið af kennurum eða að ósamræmi sé á milli notkunar þeirra. Þátttakendur telja að Námsframvindan eigi eftir að efla faglegt starf kennara, tryggja yfirsýn og samræmi í kennslu. Talið er að ábyrgð nemenda muni aukast með sýnilegum námsmarkmiðum og vera hvetjandi fyrir þau sérstaklega með tilkomu námsmatsins eins og þeir sögðu sjálfir.
    Stjórnendur voru bjartsýnir gagnvart innleiðingu Námsframvindunnar því reynslan sýndi að starfsmenn skólans væru fljótir að tileinka sér nýjungar. Starfsmönnum þótti tilgangur og markmið Námsframvindunnar skýr en í ljós kom heldur lítil ánægja með innleiðingarferlið. Þeir söknuðu verkáætlunar sem sýndi með hvaða hætti innleiðingin ætti að fara fram og sögðu að faglega umræðu meðal kennara hefði vantað. Þá kom fram að samskipti stjórnenda við þá hefðu mátt vera meiri sem kemur heim og saman við það sem stjórnendur sögðu sjálfir um að þeir þyrftu að vera meira leiðandi og stýra ferlinu. Mentor gæti unnið betur að undurbúningi innleiðingar á Námsframvindu í samstarfi við stjórnendur hvers skóla og lagt áherslu á þá þætti sem virðast mikilvægir til að auka árangur.

Samþykkt: 
  • 22.6.2010
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/5670


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Meistaraverkefni_BAB3.pdf3.68 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna