is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/6914

Titill: 
  • Heilsuefling meðal eldri aldurshópa : þekking, viðhorf og fæðuval
Titill: 
  • Health promotion for older adults: knowledge, attitude and food choice.
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Við öldrun verða miklar breytingar á starfsemi líkamans og heilsubrestir verða algengari. Góðar fæðuvenjur með tilliti til magns og gæða geta dregið verulega úr þessari þróun. Markmið þessarar rannsóknar var að meta hvort breytingar yrðu á þekkingu, viðhorfum og fæðuvenjum hjá einstaklingum 70 ára og eldri eftir 26 vikna íhlutunartímabil. Fylgni var einnig skoðuð á milli neysluvenja, þekkingar og holdafars.
    Í upphafi hófu 173 einstaklingar íhlutun en af þeim náðu 146 að uppfylla þær kröfur sem gerðar voru til þátttakenda. Þátttakendum var skipt niður í viðmiðunarhóp (VH) og þjálfunarhóp (ÞH) áður en íhlutun hófst. Íhlutunin var yfirgripsmikil og tók til alhliða heilsueflingar með áherslu á reglulega líkamsþjálfun og bætt mataræði. Hvað næringarþáttinn varðar fólst íhlutunin í þremur stuttum fræðsluerindum um mikilvægi góðrar næringar. Gögnum um næringu var safnað með spurningalistum og fæðudagbókum, en holdafar var mælt.
    Ekki var munur á neysluvenjum hópanna í uphafi rannsóknar fyrir utan að þátttakendur þjálfunarhóps sögðust hafa dregið meira úr saltneyslu síðastliðin ár og drukku meira te en þeir sem voru í viðmiðunarhópi. Upphaflega var fylgni milli þekkingar og grænmetis- og ávaxtaneyslu auk þess sem neysla fljótandi lýsis var tengd meiri þekkingu. Ekki reyndist marktækur munur á BMI milli kynja í upphafi, en fylgni var á milli lægra BMI og meiri fiskneyslu hjá körlum en á milli lægra BMI og neyslu meira grænmetis og ávaxta hjá konum. Á sama hátt var kynbundin fylgni á milli minna mittismáls og þessara sömu matvæla, en auk þess var fylgni á mittismáli hjá körlum og áfengisneyslu.
    Helstu niðurstöður eftir íhlutun voru þær að þátttakendur þjálfunarhóps borðuðu fleiri máltíðir og millibita en áður (p=0,002) og juku neyslu ferskra ávaxta og berja (p=0,006) samanborðið við viðmiðunarhóp sem sýndi ekki marktæka breytingu eftir íhlutunartímabilið. Neysla matreidds grænmetis breyttist einnig á milli hópa (p=0,040) en þátttakendur þjálfunarhóps borðuðu matreitt grænmeti oftar en viðmiðunarhópur. Ekki varð marktæk breyting á neyslu fersks grænmetis eftir íhlutunartímabilið. Loks drukku þátttakendur þjálfunarhóps meira vatn eftir íhlutunartímabilið (p<0,001) en þátttakendur viðmiðmiðunarhóps minna (p=0,028).
    Kynjamunur reyndist ýmist innan viðmiðunarhóps, þjálfunarhóps eða beggja hópa í því að matreiða á heimilinu, að kaupa fleiri tegundir brauða, neyslu ferskra ávaxta og berja, fjölda máltíða og millibita, neyslu hrás og/eða fersks grænmetis og kaffidrykkju. Kynjamunur var ekki eins mikill innan hópanna eftir íhlutunartímabil.
    Þekking jókst í báðum hópum eftir íhlutunartímabilið en þó jókst þekkingin meira innan þjálfunarhóps og var munur á milli hópa marktækur (p=0,005). Hjá þjálfunarhópi varð íhlutunin til þess að þátttakendur töldu sig vera meðvitaðri um mikilvægi góðrar næringar og hugsuðu meira um hvað þeir borðuðu.
    Ljóst er af niðurstöðunum að dæma að íhlutun sem meðal annars felur í sér fræðslu sem miðar að aukinni þekkingu getur átt þátt í að ná fram hegðunarbreytingum hjá eldri einstaklingum. Stuttir og hnitmiðaðir fræðslufyrirlestrar geta því verið gagnlegir í heilsueflingu fyrir einstaklinga 70 ára og eldri.

Styrktaraðili: 
  • Rannsóknarnámssjóður (Rannís), Rannsóknarsjóður Kennaraháskóla Íslands, aðstoðarmannasjóður Háskóla Íslands, Máttur sjúkraþjálfun ehf., World Class, Knattspyrnusamband Íslands, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sveitarfélagið Árborg, samband sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu, Hjartavernd, Verkalýðsfélagið Hlíf í Hafnarfirði, Íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkur (ÍTR), Íþróttasjóður Menntamálaráðuneytis og Vísindasjóður Félags íslenskra sjúkraþjálfara (FÍSÞ).
Samþykkt: 
  • 9.11.2010
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/6914


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
ritgerd_Sandra_til_prentunar.pdf3.42 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna