ÍslenskaenEnglish

Aðilar að Skemmunni

Leit eftir:


LokaverkefniHáskóli Íslands>Hugvísindasvið>B.A. verkefni>

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/7452

Titill

Gnóstísk trúarbrögð og Nýja testamentið. Lógos-hugtakið í formála Jóhannesarguðspjalls og Forvitund í þrem víddum

Skilað
Október 2007
Útdráttur
en

Ritgerð þessi fellur undir fræðasvið nýjatestamentisfræða og er þungamiðja hennar athugun á tengslum Nýja testamentisins við hin svokölluðu gnóstísku trúarbrögð. Til þess að geta ráðist í slíka athugun er nauðsynlegt að gera grein fyrir því sem fjallað er um en að því er ekki hlaupið þegar gnóstísk trúarbrögð eiga í hlut. Fyrsti hluti ritgerðarinnar fjallar um þær heimildir sem til eru um gnóstísk trúarbrögð og hvernig fræðimenn hafa í gegnum tíðina unnið úr þeim og sett fram skilgreiningar sem kalla má hefðbundnar. Þá er fjallað um umræðu dagsins í dag, nýlegar flokkunarkenningar, skilgreiningartillögur og uppgjörið við hina hefðbundnu skilgreiningu á trúarbrögðunum og að hvaða leyti hún getur komið að gagni í þeirri umræðu sem nú fer fram. Með því að taka á þessari umræðu fæst ákveðin hugmynd um það sem felst í gnóstískum trúarbrögðum um leið og gerð er grein fyrir því fræðilega ósætti sem ekki dylst.
Nauðsynlegt er að tíma- og staðsetja gnóstísk trúarbrögð svo hægt sé að ræða um tengsl þeirra við Nýja testamentið. Í það minnsta verður að gefa grófa hugmynd um það hvar þau eru upp sprottin og í öðrum kafla er bent á að trúarbrögðin sæki margt í hið helleníska menningarumhverfi. Litið er til grískrar heimspeki, hellenískra launhelga og ýmissa þátta síðgyðingdóms með það að augnamiði að sýna fram á að þar sé bakgrunn þeirra að finna fremur en t.a.m. í kristindómnum einum og sér eins og margir hafa haldið fram.
Þriðji og síðasti hlutinn tekur á tengslum Nýja testamentisins við gnóstísk trúarbrögð. Er þar bæði fjallað almennt um helstu kenningar sem settar hafa verið fram í því samhengi en einnig verður fjallað ýtarlega um tengsl tveggja texta. Annars vegar formála Jóhannesarguðspjalls (Jóh 1.1-18) og hins vegar rits úr Nag Hammadi safninu sem nefnt hefur verið Forvitund í þrem víddum (e. Trimorphic Protennoia). Við þá umfjöllun verður notast við aðferðafræði sem kölluð hefur verið textatengsl (e. intertextuality).

Samþykkt
31.1.2011


Skrár
NafnRaðanlegtStærðRaðanlegtAðgangurRaðanlegtLýsingRaðanlegtSkráartegund
ba_haraldur_hreins... .pdf895KBOpinn Heildartexti PDF Skoða/Opna