ÍslenskaenEnglish

Aðilar að Skemmunni

Leit eftir:


LokaverkefniHáskóli Íslands>Heilbrigðisvísindasvið>Meistaraprófsritgerðir>

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/7994

Titill

Samanburður á útkomu fyrirfram ákveðinna heimafæðinga og sjúkrahúsfæðinga á Íslandi 2005-2009. Afturvirk forrannsókn með tilfella-viðmiðasniði

Skilað
Apríl 2011
Útdráttur

Tíðni heimafæðinga á Íslandi hefur aukist hratt á síðustu árum, úr 0,7% árið 2000 í 1,8% árið 2009, í kjölfar sögulegrar lægðar í lok síðustu aldar. Ekki hefur verið gerð fræðileg rannsókn á útkomu heimafæðinga á Íslandi. Tilgangur meistaraverkefnisins var að þróa rannsóknaráætlun fyrir samanburð á útkomu fyrirfram ákveðinna heimafæðinga og sjúkrahúsfæðinga hjá sambærilegum hópi hraustra kvenna og forprófa áætlunina með forrannsókn.
Samkvæmt hugmyndafræði ljósmæðra um fæðingu sem lífeðlislegt ferli, sem liggur rannsókninni til grundvallar, ætti heimafæðing að vera valkostur fyrir heilbrigðar konur með eðlilega meðgöngu að baki. Niðurstöður nýlegra, erlendra rannsókna hafa gefið til kynna að útkoma fyrirfram ákveðinna heimafæðinga sé betri en útkoma sjúkrahúsfæðinga hvað varðar inngrip og heilsufar móður og barns en ekki sé marktækur munur á tíðni burðarmálsdauða.
Rannsóknin var megindleg með afturvirku tilfella-viðmiðasniði. Í tilfellahópi var hentugleikaúrtak 39 heimafæðinga úr þýði allra heimafæðinga á Íslandi á árunum 2005-2009. Í viðmiðahópi var markmiðsúrtak 39 sjúkrahúsfæðinga sem pöruðust við heimafæðingar og voru úr þýði án frábendinga fyrir heimafæðingu. Unnið var úr gögnum með lýsandi tölfræði og ályktunartölfræði, Kí-kvaðratprófum, Wilcoxon-prófum og Fisher’s-prófum.
Niðurstöður forrannsóknar leiddu í ljós góða útkomu móður og barns í báðum rannsóknarhópum. Tíðni inngripa var marktækt lægri hjá heimafæðingarhópi þótt til þeirra teldust fæðingar sem lauk á sjúkrahúsi. Apgarstig 5 mínútum eftir fæðingu voru marktækt betri hjá börnum sem fæddust heima. Niðurstöður íslensku forrannsóknarinnar samræmast niðurstöðum nýlegra, erlendra rannsókna á útkomu heimafæðinga. Þörf er á frekari rannsóknum sem ná til stærri rannsóknarhópa og skoða þætti sem geta haft áhrif á útkomu heimafæðinga, eins og búsetu, flutning og starfsreynslu ljósmóður.
Lykilorð: Útkoma, fyrirfram ákveðin heimafæðing, fyrirfram ákveðin sjúkrahúsfæðing, ljósmóðir.

Samþykkt
28.4.2011


Skrár
NafnRaðanlegtStærðRaðanlegtAðgangurRaðanlegtLýsingRaðanlegtSkráartegund
Samanburður á útko... .pdf517KBOpinn Heildartexti PDF Skoða/Opna