is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/8192

Titill: 
  • Tvískinnungur varðandi fjárhættuspil. Á fjárhagslegur ávinningur eða félagsleg sjónarmið að ráða för?
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Í upphafi er gerð grein fyrir starfsemi spilavíta í heiminum með því að skoða rekstrarform, lög og almennar reglur og skattlagningu. Áhersla var lögð á að skoða hvernig fyrirkomulag og lagaumhverfi er á hinum Norðurlöndunum en lög og reglur hvað varða spilavíti og rekstur þeirra eru misjöfn milli landanna. Þá var sjónum beint að íslensku stjórnsýslu- og lagaumhverfi hvað varðar fjárhættuspil og mögulegan rekstur spilavítis. Bæði lögleg og ólögleg fjárhættuspil eru stunduð á Íslandi. Spilakassar eru reknir á vegum Íslandsspila og Happdrættis Háskóla Íslands en þeir flokkast sem lögleg fjárhættuspil og rennur allur hagnaður óskiptur til öryggis- og velferðarmála. Ólögleg fjárhættuspil eins og til dæmis Póker og 21 eru spiluð á veitingastöðum, í heimahúsum sem og á netinu og rennur hagnaður til innlendra eða erlendra einkaaðila og ekki verður króna eftir í ríkiskassanum. Mikill meirihluti þeirra sem stunda fjárhættuspil gera það sér til ánægju. Það má samt ekki líta fram hjá þeirri staðreynd að hluti þeirra sem stunda þessa iðju, ánetjast peningaspilun sem oft eyðileggur líf þeirra og jafnvel heilu fjölskyldnanna.
    Í hinu síbreytilega umhverfi veraldarvefsins hafa skotið upp kollinum ógrynnin öll af vefsíðum sem bjóða upp á fjárhættuspilamennsku og á síðustu árum hefur fólki sem spilar fjárhættuspil á netinu fjölgað. Aðgengi að fjárhættuspilum er nú þegar mikið í íslensku þjóðfélagi. Því er nauðsynlegt að meta hvort leyfisveiting fyrir rekstri spilavítis muni skila það miklum tekjum til þjóðarbúsins að ekki sé hægt að horfa fram hjá þeim möguleika eða hvort hún muni verða til þess að félagsleg vandamál aukist.
    Framkvæmd var eigindleg rannsókn með það að markmiði að kanna hvað mælir með og á móti rekstri spilavítis á Íslandi. Hver er mögulegur fjárhagslegur ávinningur af rekstri spilavítis fyrir íslenskt þjóðarbú og hver eru félagsleg vandamál tengd fjárhættuspilum? Viðtöl voru tekin við níu viðmælendur sem allir tengjast á mismunandi hátt umræðunni um hvort lögleiða eigi starfsemi spilavítis á Íslandi. Hóparnir voru tveir og spurningar tengdar fjárhagslegum ávinningi lagðar fyrir hjá öðrum hópnum og spurningar tengdar mögulegum félagslegum vandamálum hjá hinum.
    Til að hægt sé að heimila rekstur spilavítis á Íslandi þarf að breyta löggjöf um fjárhættuspil. Skiptar skoðanir eru um það hvort gefa eigi leyfi fyrir ríkis- eða einkareknu spilavíti, ef leyfisveiting verður að veruleika. Með því að skattleggja tekjur einkarekins spilavítis er hægt að búa til nýjan skattstofn sem rennur beint í ríkissjóð og eyrnamerkja hann sérstöku málefni eða starfsemi. Rekstur ríkisrekins spilavítis byggist á annars konar formúlu þar sem allur hagnaður rennur óskiptur til líknar- eða góðgerðamála.
    Nauðsynlegt er að minnka aðgengi að spilakössum og fækka stöðum. Skiptar skoðanir eru um hvort rekstur spilavítis auki á félagsleg vandamál áhættuhópsins. Sumir telja að aðgengi að fjárhættuspilum sé það mikið að eitt spilavíti eigi ekki að skipta máli. Aðrir telja aukið aðgengi skapa meiri vanda. Mikil tengsl eru á milli spilafíknar og spilunar í spilakössum, netspilunar og pókeriðkunar og meðferðarúrræðum fyrir fólk með spilafíkn er ábótavant. Bæði lögleg og ólögleg spilamennska er í landinu. Eftirlit með þeim stöðum sem bjóða upp á lögleg fjárhættuspil er í stöðugri endurskoðun en eftirlit með þeim stöðum þar sem ólögleg spilamennska á sér stað er ekkert. Viðmælendur voru sammála um að betra væri að hafa hlutina uppi á borðinu þannig að hægt sé að herða eftirlit.

Samþykkt: 
  • 3.5.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/8192


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Tvískinnungur varðandi fjárhættuspil.pdf760.55 kBLokaðurHeildartextiPDF