is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/8258

Titill: 
  • Vátryggingarhagsmunir fjölskyldunnar og samsettar vátryggingar
  • Titill er á ensku Insurable Risks of the Family and Comprehensive Insurance Coverage
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Á síðustu áratugum hafa vátryggingafélög í vaxandi mæli farið að bjóða samsettar vátryggingar, þar sem vátryggt er gegn margvíslegum áhættum í stað oftast einnar. Skýrt dæmi slíks eru samsettar vátryggingar, sem félögin bjóða vegna sameiginlegra hagsmuna fjölskyldunnar af ýmsu tagi. Oft er heitið fjölskyldutrygging notað um þessa samsettu vátryggingu, og undir hana falla margar og margs konar áhættur. Fjölskyldutryggingarnar eru byggðar upp á hinum tveimur höfuðflokkum vátrygginga, þ.e. skaðatryggingum og persónutryggingum, og á vissan hátt má segja, að vátryggingarétturinn sé að miklu leyti allur undir, þegar fjallað er um fjölskyldutryggingarnar. Í ritgerðinni er í byrjun hugað að því, hvernig einföld vátryggingarvernd þróaðist í margþættari vernd með samsettum vátryggingum. Í kjölfar þess er fjallað um vátryggingarhagsmuni fjölskyldunnar og hvernig fjölskyldutryggingar íslenskra vátryggingafélaga mæta vátryggingarþörf vátryggingartaka og fjölskyldu hans. Jafnframt er gerð grein fyrir helstu lögfræðilegum álita- og ágreiningsefnum milli vátryggðra og vátryggingafélaga. Fjölskyldutryggingar íslensku félaganna eru mismunandi, og þar með sú vernd sem þær veita vátryggðum. Dæmi eru um að vátrygging, sem er innifalin í fjölskyldutryggingu eins félags sé það ekki hjá öðru, og að sömu vátryggingar innan fjölskyldutrygginganna hafi mismunandi gildissvið eftir félögum. Hugtakið vátryggðir í fjölskyldutryggingunum virðist þó almennt taka mið af nútíma fjölskyldumynstri þó að sjálfsagt mætti skýra hugtakið eitthvað betur. Þótt erfitt kunni að vera fyrir hinn almenna neytanda að bera saman þessar fjölskyldutryggingar milli félaga verður sá kaleikur ekki frá honum tekinn. Vart er ástæða til á grundvelli neytendasjónarmiða að hlutast til um samræmingu á þessum vátryggingum eins og dæmi er um erlendis frá. Ljóst er að ný lög um vátryggingarsamninga sem komu hér á landi til framkvæmda á árinu 2006 hafa að ýmsu leyti bætt stöðu vátryggðra miðað við eldri rétt. Með lögunum, en fyrirmynd þeirra voru norsk lög um sama efni, var stefnt að því að setja skýrari mörk á milli annars vegar hlutlægra ábyrgðartakmarkana sem félögum er frjálst að setja og hins vegar ákvæða er varða hegðun vátryggðs eða varúðarreglur sem ekki þurfa að leiða til brottfalls bótaréttar. Sé horft til þess, hvernig markmið laganna að þessu leyti endurspeglast í fjölskyldutryggingum íslensku félaganna, er ljóst að gamalgrónar ábyrgðartakmarkanir halda gildi sínu, t.d. í slysatryggingum um að bætur greiðist ekki hafi vátryggður slasast í handalögmálum og í innbústryggingum um að þjófnaður úr híbýlum bætist ekki nema ótvíræð merki séu um innbrot. Með aðrar takmarkanir sem fremur flokkast sem leyndar hegðunarreglur sýnist hins vegar í einhverjum tilvikum enn vera farið eins og um fortakslausar hlutlægar ábyrgðartakmarkanir sé að ræða. Dæmi um slíkt er í farangurstryggingarlið fjölskyldutryggingarinnar, þar sem vátryggður týnir eða misleggur farangur á almannafæri. Virðist framkvæmdin að þessu leyti önnur hér á landi en í Noregi. Þá virðist einnig sem við mat á því, hvort varúðarreglur innbústrygginga hafi verið brotnar vegna frágangs á glugga- og dyrabúnaði, sé rík tilhneiging hér á landi til að fella skyldu félagsins til greiðslu bóta alveg niður, en í norskri framkvæmd fellur hún iðulega aðeins niður að hluta. Leggja verður þó áherslu á, að löggjöfin er nýleg. Enn vantar því frekari leiðbeiningar frá dómstólum varðandi fjölmörg álitaefni, sem tengjast fjölskyldutryggingum hér á landi.

Samþykkt: 
  • 4.5.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/8258


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
meistaraprofsritgerd.pdf838.12 kBLokaðurHeildartextiPDF