is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/8276

Titill: 
  • Heimild dómara til þess að dæma sameiginlega forsjá
  • Titill er á ensku The right of judges to determine joint custody
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Ljóst er að mörg börn alast ekki upp hjá báðum foreldrum sínum ýmist sökum þess að foreldrar hafa aldrei verið saman eða slíta samvistum. Sambúðarslit foreldra geta haft víðtæk og oft varanleg áhrif á börn og mikilvægt er að foreldrar geri sér grein fyrir því. Þegar foreldrar ákveða að búa ekki saman eru margar ákvarðanir sem þarf að taka varðandi hag barns eins og til dæmis tilhögun forsjár, hjá hvoru foreldri barnið skal búa, umgengni og framfærslu þess.
    Sú meginregla sem gildir í dag við sambúðarslit er sameiginleg forsjá. Ef ágreiningur rís um það hvernig skuli fara með forsjá barns og foreldrar ná ekki sáttum með hjálp sýslumanns getur þurft að leysa málið fyrir dómstólum. Samkvæmt íslenskum rétti hafa dómstólar ekki heimild til að dæma foreldrum sameiginlega forsjá. Dómstólar annars staðar á Norðurlöndunum hafa hins vegar heimild til að dæma sameiginlega forsjá gegn vilja annars foreldris. Undanfarin ár hefur umræða átt sér stað hér á landi hvort tímabært sé að breyta núverandi fyrirkomulagi og veita dómstólum heimild til að dæma sameiginlega forsjá. Skiptar skoðanir eru á því hvort ástæða sé til að taka upp slíkt fyrirkomulag hér á landi og hvort umrædd heimild komi raunverulega að gagni og sé barninu fyrir bestu.
    Í ritgerðinni er leitast við að draga fram með- og mótrök í þeirri von að það svari þeirri spurningu hvort og með hvaða hætti heimila eigi dómara að dæma sameiginlega forsjá. Í upphafi er fjallað um rétt barns til fjölskyldu og foreldra skv. samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins en einnig eru ákvæði íslenskra laga skoðuð. Farið er almennt yfir slit á hjúskap og sambúð og áhrif þess á börn. Auk þess er gerð grein fyrir tveimur íslenskum rannsóknum á reynslu og upplifun foreldra á sameiginlegri forsjá. Því næst er leitast við að skýra ýmis mikilvæg hugtök sem varða börn þegar foreldrar búa ekki saman eins og t.d. forsjá, búsetu og umgengni. Í kjölfarið fylgir ítarleg umfjöllun um sameiginlega forsjá og hvernig henni er háttað hér á landi. Litið er til þess hvernig hún hefur þróast í íslensku réttarkerfi og hvert inntak hennar sé. Einnig er skoðað hvaða þýðingu það hefur fyrir foreldra að fara sameiginlega með forsjá barns síns þegar þau búa ekki saman. Því næst er farið yfir heimild dómara til þess að dæma sameiginlega forsjá. Í byrjun er litið til þess hvernig sú umræða hefur verið á Íslandi undanfarin ár og þær tillögur sem lagðar hafa verið fram. Einnig er kannað hvernig fyrirkomulagið er á hinum Norðurlöndunum en umfangsmesta umfjöllunin er um réttarástandið í Danmörku. Í því sambandi er m.a. litið til þeirra þátta sem skipta máli við mat dómara á því hvort grundvöllur sé fyrir sameiginlegri forsjá foreldra.
    Að lokum er gerð rannsókn á íslenskum og dönskum dómum sem varða forsjá. Ætlunin er aðallega að meta hvort niðurstöður íslenskra dómstóla hefðu mögulega orðið öðruvísi ef dómara hefði verið heimilt að dæma sameiginlega forsjá. Við umrædda skoðun á niðurstöðum íslenskra dómstóla er litið til danskrar dómaframkvæmdar. Danskir og íslenskir dómar eru bornir saman og það metið hvort einhver líkindi séu með þeim þannig að leiða megi líkur að því að niðurstöður íslenskra dómstóla hefðu orðið öðruvísi ef dómstólar hefðu haft umrædda heimild. Íslenskir dómar eru einnig metnir sjálfstætt. Auk þess er áhugavert að skoða niðurstöður danskra dómstóla til að meta hvernig heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá hefur reynst þar í landi.

Samþykkt: 
  • 5.5.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/8276


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Heimild dómara til þess að dæma sameiginlega forsjá.pdf783.32 kBLokaðurHeildartextiPDF