is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/8297

Titill: 
  • Ógildingarreglur samningalaga um; svik, óheiðarleika og ósanngirni og samanburður á ákvæðunum, sbr. 30., 33. og 36. gr. samningalaga
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Ritgerðin fjallar um ógildingarreglur samningalaga um svik, óheiðarleika og ósanngirni og gerður er samanburður á ákvæðunum sbr. 30., 33. og 36. gr. samningalaga laga nr. 7/1936. (sml.). Ógildingarheimildir samningaréttarins eru í eðli sínu undantekningarreglur og takmarka því þá grundvallarreglu fjármunaréttarins að samninga ber að efna og halda. Má því segja að grundvallarreglan virki sem mótvægi gegn ógildingarreglum samningalaga. Nauðsynlegt er að menn geti treyst á að gerðir samningar haldist og er það grundvöllur heilbrigðra viðskipta. Reynt var að glöggva sig á þeirri línu sem dómstólar hafa dregið í þessum málum og hvaða til hvaða sjónarmiða dómstólar hafa einna helst litið. Einnig var hugað að norrænni réttarþróun í þessum málum en þó aðallega hvernig tekið hefur verið á sambærilegum málum í Danmörku. Litlar breytingar hafa orðið á meginefni samningalaganna frá setningu þeirra. Helsta breytingin sem snýr að ógildingu samninga var á 36. gr. með lögum nr. 11/1986, þar sem heimilað var að líta til atvika sem koma til eftir samningsgerðina. Við beitingu 30. og 33. gr. sml. þá er litið til atvika sem urðu áður en löggerningurinn var farinn að hafa áhrif á ráðstafanir hans. Þegar dómaframkvæmd hér á landi var metin varðandi ákvæðin kom í ljós að víðtækust var ógildingarheimild 36. gr. sml. og virðist henni frekar vera beitt en hinum ógildingarákvæðunum. Þær niðurstöður eru í samræmi við skrif danskra fræðimanna sem einnig hafa komist að þeirri niðurstöðu í rannsóknum sínum á samningarétti. Ástæðu þessa má rekja til þess hversu víðtæk ógildingarheimild er fólgin í 36. gr. sml. Þar að auki má telja að mun minna þurfi að koma til svo ógilda megi samninga á grundvelli 36. gr. sml. heldur en á grundvelli 30. eða 33. gr. sömu laga. Það skýrist af því að skilyrði 36. gr. um ósanngirni er mun vægara en skilyrði 30. gr. um svik og 33. gr. um óheiðarleika. Í þessari ritgerð er einkum litið til möguleika loforðsgjafa á að fá samning sinn ógiltan vegna atvika sem voru við samningsgerðina eða aðstæðna sem komu upp eftir að samningur var kominn á.
    Í upphafi ritgerðarinnar er fjallað um aðdragandann að setningu samnningalaga og hvernig hin norræna samvinna skilaði sér í þeirri mynd sem samningalögin hafa nú. Þar næst var stiklað á stóru um ógildingarheimildir í þýskum, frönskum og enskum rétti. Þessar þjóðir hafa engin sambærileg ógildingarákvæði og 36. gr. sml. sem hinnar norrænu þjóðir hafa í samningalögum sínum en sjá má ákvæði sem líkjast öðrum ákvæðum III. kafla laganna. Í kafla þrjú eru skoðaðar hvaða reglur gilda um skuldbindingargildi samninga og í því samhengi minnst á hina óskráðu meginreglu ,,Pacta sumt servanda“ sem þýða mætti á íslenska tungu sem ,,samninga skal efna“ en reglan er úr Rómarrétti. Einnig var komið inn á regluna um frelsi til samningsgerðar sem er ein af grundvallareglum samningaréttar. Felst í reglunni að mönnum sé almennt heimilt að velja hvort þeir ákveða að gera samning og ef þeir kjósa svo, þá ráði þeir við hvern þeir semja og hafi frelsi um efni löggerningsins.
    Í fimmta kafla er fjallað með nokkuð ítarlegum hætti um 30. gr. sml. Þar kemur fram að 30. gr. sml. er samhljóða 30. gr. dönsku samningalaganna og þannig er í raun með öll þrjú ákvæðin sem tekin voru til umfjöllunar í ritgerðinni. Lykilatriði varðandi beitingu 30. gr. sml. er að sá sem gerir þá kröfu að samningur sé ekki bindandi, vegna svika gagnsaðilans, ber sjálfur sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi verið beittur svikum. Það er einnig gert að skilyrði að svikin hafi orðið forsenda þess að samningur hafi verið gerður. En svik í skilningi 30. gr. sml. telst vera veik ógildingarástæða, sem leiðir til þess að hún hefur ekkert gildi gagnvart grandlausum aðila.
    Í sjötta kafla er fjallað um 33. gr. sml. sem tekur á ógildingu samninga vegna óheiðarleika við samningsgerðina. Regla 33. gr. sml. tekur á þeim tilvikum þegar annar aðilinn hefur hagað sér óheiðarlega við samningsgerð þeirra. Reglan getur talist ógildingarástæða samninga og nær hún yfir flestar ógildingarástæður samningaréttar. Ekki kemur fram í greininni hvað geti talist vera óheiðarlegt og vísar ákvæðið til ákveðins gildismat sem er af huglægum toga og getur breyst af ráðandi siðferðismati í þjóðfélaginu hverju sinni.
    Í sjöunda og áttunda kafla er fjallað heildstætt um 36. gr. sml. Ákvæðið er í fyrsta lagi ógildingarregla, í ákvæðinu er notað orðalagið að víkja samningi til hliðar eða í heild hefur ákvæðið oft verið kölluð hliðrunarreglan. Dómstólar geta því vikið samningi að hluta til eða breytt honum þannig að sá þáttur samningsins sem telst ósanngjarn er tekinn út. Aftur á móti er veigamesta breytingin með tilkomu reglunnar sú að reglan heimilar dómstólum og þeim sem ber fyrir sig regluna að bera fyrir sig atvik sem gerast eftir að samningur kemst á. Varðandi orðalag reglunnar þá vísar ákvæðið til ósanngirni og viðskiptavenju. Í þeim skilningi að ef samningur er talinn ósanngjarn að mati dómstóla eða þá að hann beinlínis gengur gegn viðskiptavenju þá sé samningurinn ógildur. Dómaframkvæmd er í samræmi við þessi sjónarmið bæði hér á landi og á hinum Norðurlöndunum.
    Í níunda kafla er samanburður gerður á ákvæðunum þremur og skoðað hvaða þættir helst skilja greinarnar að. Þar kemur fram að aðalmunurinn á 33. og 36. gr. sml. liggur í því að með beitingu 33. gr. sml. sé óhjákvæmilegt fyrir dómstólinn að meta hvort hegðun löggerningsmóttakandans sé siðferðilega rétt í ljósi vitneskju hans. Siðferðismatið varðandi 36. gr. takmarkist við mat á jafnvæginu milli hagsmuna samningsaðila.
    Að lokum er í tíunda kafla umfjöllun um ákvæði 36. gr. a-d. sml. sem byggðist á tilskipun ráðherraráðs Evrópusambandsins 93/13/EBE frá 5.apríl 1993. Ákvæðunum er ætlað að bæta réttarstöðu neytenda.

Samþykkt: 
  • 5.5.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/8297


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Snorri Vidal.pdf776.68 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna