is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/9060

Titill: 
  • Áhrif ómega-3 fitusýrunnar eikósapentaensýru á þroskun angafrumna og getu þeirra til að ræsa CD4+ T frumur
  • Titill er á ensku The effects of the omega-3 fatty acid eicosapentaenoic acid on dendritic cells and their ability to stimulate CD4+ T cell in vitro
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Angafrumur eru aðalsýnifrumur ónæmiskerfisins en hlutverk þeirra er að taka upp vaka og sýna þá óreyndum T frumum. Angafrumur gegna lykilhlutverki við stjórnun sérhæfingar T frumna. Ómega-3 fjölómettaðar fitusýrur hafa áhrif á ýmsar frumur ónæmiskerfisins, svo sem T frumur og makrófaga, og yfirleitt eru áhrif þeirra talin vera bælandi. Lítið er vitað um áhrif ómega-3 fitusýra á angafrumur.
    Markmið verkefnisins var að athuga áhrif ómega-3 fitusýrunnar eikósapentaensýru (EPA) og ómega-6 fitusýrunnar arakídónsýru (AA) á angafrumur og getu angafrumna til að ræsa bæði samgena og ósamgena CD4+ T frumur.
    Óþroskaðar angafrumur voru ræktaðar með eða án EPA eða AA í sólarhring og fitusýrurnar síðan þvegnar af. Óþroskuðu angafrumurnar voru síðan þroskaðar áfram og þroskun þeirra metin með því að mæla tjáningu á yfirborðssameindum með frumuflæðisjá og seytun á boðefnum með ELISA aðferð. Einnig voru þroskaðar angafrumur sem höfðu verið meðhöndlaðar með eða án fitusýranna settar í rækt, annars vegar með ósamgena CD4+ T frumum og hins vegar með samgena óreyndum (CD45RA+) CD4+ T frumum og virkjun T frumnanna skoðuð með mælingu á boðefnum í floti með ELISA aðferð og fjölgun þeirra með innlimun á geislavirku tímidíni.
    Ræktun með EPA olli því að færri þroskaðar angafrumur tjáðu yfirborðssameindirnar HLA-DR, CD86, CD80, CD40, CCR7 og DC-SIGN miðað við angafrumur sem voru ræktaðar með AA eða án fitusýra, og var fækkunin styrkháð fyrir CD86 og HLA-DR. Þrátt fyrir að enginn munur hafi verið á meðaltjáningu ofangreindra sameinda hjá angafrumum sem voru ræktaðar með eða án fitusýra þegar skoðuð var tjáning allra frumna, þá reyndist meðaltjáning CD40 sameinda vera meiri hjá angafrumum ræktuðum með EPA miðað við angafrumur ræktuðum með AA eða án fitusýra þegar einungis voru skoðaðar CD40 jákvæðar frumur og einnig tilhneiging til þess sama fyrir meðaltjáningu á CD86 og HLA-DR. Angafrumur sem voru ræktaðar með EPA seyttu minna af IL-10 og höfðu tilhneigingu til minni seytunar á IL-12p40 en meiri seytunar á IL-6 en angafrumur sem voru ræktaðar með AA eða án fitusýra.
    Ósamgena CD4+ T frumur sem voru samræktaðar með EPA meðhöndluðum angafrumum höfðu tilhneigingu til meiri seytunar á IL-17 og IFN-γ en minni seytunar á IL-4 en ósamgena CD4+ T frumur sem voru ræktaðar með AA meðhöndluðum angafrumum eða með ómeðhöndluðum angafrumum. Enginn munur var hins vegar á fjölgun ósamgena CD4+ T frumna eftir því hvaða meðferð angafrumurnar höfðu fengið. Samgena óreyndar CD4+ T frumur sem voru ræktaðar með EPA eða AA meðhöndluðum angafrumum seyttu minna af IL-4 og höfðu tilhneigingu til minni seytunar á IL-10 en samgena óreyndar CD4+ T frumur sem voru ræktaðar með ómeðhöndluðum angafrumum, en tilhneiging var til aukinnar seytunar á IL-17 og IFN-γ.
    Þrátt fyrir að meðhöndlun óþroskaðra angafrumna með EPA fækkaði frumum sem þroskuðust yfir í þroskaðar angafrumur voru þær frumur sem þroskuðust og höfðu verið meðhöndlaðar með EPA jafn hæfar til að ræsa CD4+ T frumur og hæfari í að stýra ónæmissvari CD4+ T frumna í Th1 eða Th17 svar en frumur sem höfðu verið meðhöndlaðar með AA eða án fitusýra. Þetta getur verið vegna þess að angafrumur sem ræktaðar voru með EPA höfðu meira magn af sameindum sem taka þátt í virkjun T frumna á yfirborði sínu og HLA-DR+ angafrumur sem voru ræstar í gegnum CD40 höfðu tilheygingu til að seyta meira af IL-12p40 og IL-6 en angafrumur sem voru meðhöndlaðar með AA eða án fitusýra, sem bendir til þess að EPA meðhöndlaðar angafrumur sem ná að þroskast séu hæfari til að virkja T frumur en samsvarandi angafrumur sem voru meðhöndlaðar með AA eða án fitusýra.

Samþykkt: 
  • 8.6.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/9060


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MS ritgerð-Arna.pdf736.29 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna