is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskólinn á Akureyri > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/9377

Titill: 
  • „Meðferðarferli fyrir deyjandi sjúklinga er vegvísir sem vaktar og varðar ferli hjúkrunar við lífslok" : fyrirbærafræðileg rannsókn um reynslu hjúkrunarfræðinga af því að fylgja slíku ferli
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Bakgrunnur rannsóknar: Hjúkrunarfræðingar sem starfa á líknardeildum bera ábyrgð á því að veita skjólstæðingum sínum líknarmeðferð í samstarfi við aðrar fagstéttir og í kjölfar þess lífslokameðferð þegar leiðin að lokum lífsins fer að styttast.
    Meðferðarferlið „Liverpool Care Pathway for the Dying Patient“ (LCP) eða meðferðarferli fyrir deyjandi sjúklinga eins og það hefur verið nefnt á íslensku, kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1997. Því er ætlað að tryggja gæði í umönnun og meðferð við lífslok. Meðferðarferlið fyrir deyjandi sjúklinga er þverfaglegt ferli sem byggir á gagnreyndri þekkingu.
    Tilgangur: Megintilgangur þessarar rannsóknar var að kanna reynslu hjúkrunarfræðinga af því að fylgja meðferðarferlinu í umönnun deyjandi sjúklinga á líknardeild. Rannsóknarspurningin var eftirfarandi: „Hver er reynsla hjúkrunarfræðinga af því að nota meðferðarferlið fyrir deyjandi sjúklinga í störfum sínum á líknardeild?“
    Aðferð: Við framkvæmd rannsóknarinnar var aðferð Vancouverskólans í fyrirbærafræði fylgt. Gagna var aflað með viðtölum við 13 hjúkrunarfræðinga á aldrinum 37-66 ára (meðalaldur 51,2 ár, meðalstarfsaldur í hjúkrun 22,3 ár, meðalstarfsaldur á líknardeild 5,4 ár) er starfa á tveimur líknardeildum Landspítala háskólasjúkrahúss. Tekið var eitt viðtal við hvern hjúkrunarfræðing og viðtölin síðan þemagreind. Litið var á þá sem meðrannsakendur og var túlkun gagna borin undir þá til að auka réttmæti rannsóknarinnar.
    Niðurstöður: Meginþemað í reynslu meðrannsakenda af því að fylgja meðferðarferlinu í umönnun við lífslok var að það væri vegvísir sem vaktaði og varðaði ferli hjúkrunar. Það sameinaði mikilvæga þætti í umönnuninni, ásamt því að auka öryggi og metnað í starfi, efla faglega vitund og gagnrýna hugsun. Það vísaði veginn í veittri meðferð, beindi brautinni að breyttum áherslum og jók skilning og styrk í samskiptum við aðstandendur. Allir hjúkrunarfræðingarnir töldu mikilvægt að halda áfram að notast við meðferðarferlið fyrir deyjandi á líknardeildunum, þótt margir hafi bent á ýmsa þætti sem mætti breyta, bæta eða varast.
    Ályktun: Rannsóknarniðurstöður benda til þess að meðferðarferlið fyrir deyjandi gegni mikilvægu hlutverki í umönnun sjúklinga við lífslok. Þær varpa ljósi á reynslu hjúkrunarfræðinga á líknardeild af því að nota meðferðarferlið í störfum sínum og gefa upplýsingar sem geta komið fagfólki á þessum viðkvæma starfsvettvangi til góða við meðferð og umönnun á lokastigum lífs.
    Lykilhugtök: Líknarmeðferð, lífslokameðferð, meðferðarferli, „Liverpool Care Pathway for the Dying Patient”/ meðferðarferli fyrir deyjandi sjúklinga, hjúkrunarfræðingar, fyrirbærafræði.

Samþykkt: 
  • 22.6.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/9377


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Meist_ABP__LCP_2011.pdf3.25 MBOpinnPDFSkoða/Opna