is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/9849

Titill: 
  • Breytt réttarstaða ábyrgðarmanna. Áhrif á meginregluna um samningsfrelsi og ógilding staðlaðra ábyrgðarskilmála
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Hér á landi hefur í miklum mæli tíðkast að krefjast ábyrgðarmanna við lánveitingar og þá oft með þeim hætti að einstaklingar gangast undir sjálfskuldarábyrgð. Lengst af hafa ekki verið í íslenskum lögum almennar reglur um ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga eða hvernig staðið skuli að slíkri samningsgerð. Meginreglan um samningsfrelsi gildir á þessu sviði og hefur réttarstaðan fyrst og fremst ráðist af samningi ábyrgðarmanns við kröfuhafa.
    Veruleg breyting varð á sviði löggjafar um neytendamál í kjölfar gildistöku samningsins um Evrópska efnahagssvæðið árið 1994. Efnahagssamdráttur í byrjun tíunda áratugar tuttugustu aldar leiddi til aukinna vanskila sem varð til þess að fleiri ábyrgðarskuldbindingar féllu á ábyrgðarmenn. Það varð til þess að þjóðfélagsumræðan beindist í auknum mæli að veikri stöðu ábyrgðarmanna gagnvart kröfuhöfum. Viðskiptaráðherra skipaði því nefnd þann 22. febrúar 1996 sem hafði það hlutverk að fara yfir framkvæmd ábyrgðarveitinga og gera tillögu til úrbóta. Nefndin taldi að grípa yrði til aðgerða til þess að draga úr veitingu lána með ábyrgð þriðja manns og fulltrúar viðskiptaráðuneytisins í nefndinni töldu að með samkomulagi fjármálastofnana, stjórnvalda og samtaka neytenda mætti ná þessu markmiði.
    Neytendasamtökin, viðskiptabankar, sparisjóðir, greiðslukortafyrirtæki, viðskiptaráðherra og félagsmálaráðherra gerðu með sér samkomulag um notkun sjálfskuldarábyrgða þann 27. janúar 1998 sem öðlaðist gildi 1. maí 1998. Sömu aðilar, að félagsmálaráðherra undanskildum, stóðu að endurnýjun samkomulagsins með nokkrum breytingum þann 1. nóvember 2001. Markmið samkomulagsins hélst í meginatriðum óbreytt en samkvæmt 1. gr. samkomulagsins frá 27. janúar 1998 var markmið þess að draga úr vægi sjálfskuldarábyrgða og setja meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum, er sjálfskuldarábyrgð er sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu. Jafnframt er því lýst yfir að aðilar séu sammála um að lánveitingar verði í auknum mæli eingöngu miðaðar við greiðslugetu greiðanda og eigin tryggingar hans.
    Í kjölfar bankahrunsins sem varð hér á landi í október 2008 og efnahagssamdráttar sem fylgdi í kjölfari var ráðist í umfangsmiklar breytingar á lögum og reglum sem snúa að þeim úrræðum sem neytendum standa til boða lendi þeir í fjárhagserfiðleikum. Ein helsta lagabreytingin fólst í gildistöku laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn (hér eftir skammstöfuð ábl.).
    Í þessari ritgerð verður leitast við að kanna að hvaða leiti ofangreind samkomulög frá 1998 og 2001 takmarka samningsfrelsi aðila ábyrgðarsamnings og farið yfir sjónarmið um ógildingu samningsskilmála sem ganga gegn ákvæðum þeirra. Í kjölfar þeirrar umfjöllunar verður farið yfir þær breytingar sem lögfesting ábl. hefur í för með sér.

Samþykkt: 
  • 9.8.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/9849


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Jón Páll.pdf262.28 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna