is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/9925

Titill: 
  • Meðalhófsreglan við rannsókn sakamála
  • Titill er á ensku The principle of proportionality in the investigation of criminal cases
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Á síðustu árum hefur meðalhófsreglan fest sig í sessi sem ein af grundvallarreglum í íslensku sakamálaréttarfari. Reynir einkum á regluna þegar lögreglan beitir þvingunarráðstöfunum samkvæmt IX.-XIV. kafla laga nr. 88/2008. Í ljósi þeirrar verulegu skerðingar sem þær aðgerðir geta haft á stjórnarskrárvarin réttindi borgaranna, hefur löggjafinn gripið til þess, að lögfesta almenna meðalhófsreglu í lögum nr. 88/2008. Jafnframt er búið er að lögfesta sérstakar meðalhófsreglur í ýmsum ákvæðum laganna, einkum í köflunum um þvingunarráðstafanir, til áminningar um að sjónarmiðum meðalhófsreglunnar skuli ávallt gætt þegar þessum íþyngjandi aðgerðum er beitt. Meginmarkmið ritgerðarinnar er að gera grein fyrir áhrifum meðalhófsreglunnar við beitingu rannsóknarúrræða í lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008. Umfjöllunin byggist einkum á greiningu á dómum Hæstaréttar Íslands er varða efnið, auk þess sem litið er til nýlegra héraðsdóma af sama meiði.
    Í 2. kafla ritgerðarinnar er farið yfir sögulega þróun meðalhófs. Meðal annars hvort meðalhófssjónarmið hafi verið lögfest í eldri lögum og hvort þau hafi haft áhrif á þágildandi rannsóknarreglur. Jafnframt er kannað hvenær fyrst var farið að styðjast við umrædd sjónarmið og hvernig dómstólar hafa litið til meðalhófsreglunnar eftir að hún var lögfest. Yfirlit yfir meðalhófsreglur í íslenskum rétti er því næst til skoðunar í kafla 3. Þar er stutt umfjöllun um hina óskráðu meðalhófsreglu stjórnarskrár og stjórnsýsluréttar. Því næst er meðalhófsregla stjórnsýslulaga og reglur á einstökum stjórnsýslusviðum til skoðunar ásamt meðalhófsreglu lögreglulaga. Í kafla 3.4., sem jafnframt er þungamiðja ritgerðarinnar, er gerð grein fyrir úrræðum lögreglu við rannsókn sakamála og hvernig meðalhófsreglan hefur áhrif á þau. Dæmi úr dómaframkvæmd eru nefnd til frekari skýringar á samspili meðalhófsreglunnar og fyrirmæla um þvingunarráðstafanir og annarra aðgerða í þágu rannsóknar sakamáls. Í framhaldi af því er fjallað lauslega um áhrif meðalhófsreglunnar á ákvæðin í kafla VII og VIII um meðferð sakamála. Í 4. kafla er sjónum beint að meðalhófsreglunni í Mannréttindasáttmála Evrópu. Þar er farið yfir hvernig Mannréttindadómstóll Evrópu beitir meðalhófsreglunni í úrlausnum sínum við mat á því hvort ákvæði sáttmálans, sem snerta sakamálaréttarfar, hafi verið brotin. Ritgerðinni fylgir viðauki, þar sem sjá má heildstæða flokkun á þeim dómum sem vitnað er til í skrifunum. Þar eru þeir dómar sem snerta þvingunarráðstafanirnar flokkaðir eftir eðli sínu.
    Af skrifunum má greina að hlutverk meðalhófsreglunnar hefur vaxið fiskur um hrygg frá því að hún var einungis óskráð regla. Eftir að meðalhófsreglan var lögfest með lögum nr. 27/1951, sést af úrlausnum Hæstaréttar að þeir rökstyðja dómsniðurstöður sínar æ oftar með vísan til sjónarmiða meðalhófsreglunnar. Eftir gildistöku stjórnsýslulaganna hefur orðið vakning fyrir nauðsyn þess að lögfesta meðalhófsregluna á sviðum þar sem stjórnvöld hafa heimildir til að taka ákvarðanir sem takmarka réttindi einstaklingsins. Ástæður þessarar vakningar má einnig rekja til ríkari heimilda lögreglu til að skerða stjórnarskrárvarin réttindi borgaranna sem hefur leitt til aukinna krafna borgaranna, til þeirra sem annast rannsóknir, að þeir gæti meðalhófs í störfum sínum. Með lögum um meðferð sakamála verður að telja að löggjafinn svari þessu kalli, því lögfesting sjónarmiða meðalhófsreglunnar er hvergi víðtækari en í þeim lögum. Af þessu má ráða að meðalhófsreglan er komin til að vera í sakamálaréttarfari og mun þar af leiðandi veita lögreglu nauðsynleg viðmið við rannsókn sakamála til framtíðar litið.

Samþykkt: 
  • 6.9.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/9925


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Guðbrandur jóhannesson.pdf797.9 kBLokaðurHeildartextiPDF