is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/33114

Titill: 
  • Meðgöngusykursýki: Afdrif á meðgöngu og við fæðingu út frá fastandi blóðsykurgildum á fyrri hluta meðgöngu
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Sykursýki sem greinist fyrst á meðgöngu flokkast sem meðgöngusykursýki (MGS). Tíðni MGS hefur aukist mikið á Íslandi á síðustu árum, sem er talið vera vegna aukinnar tíðni ofþyngdar og offitu þjóðarinnar og hækkandi aldurs mæðra. Einnig hafa breytt greiningarskilmerki aukið greiningu sjúkdómsins. Aukin tíðni ýmissa fylgikvilla, bæði hjá móður og barni, hefur verið tengd við MGS. Skimað er fyrir MGS snemma á meðgöngu hjá konum með ýmsa áhættuþætti. Þá er fastandi glúkósi mældur og ef hann mælist 5,1 mmól/l eða hærra er greining staðfest. Ef hann mælist ekki svo hár er framkvæmt sykurþolspróf við 24-28 vikur. Rannsóknin skoðar útkomur fæðinga kvenna með MGS út frá fastandi blóðsykurgildi snemma á meðgöngu
    Efni og aðferðir: Gögnin fengust frá Fæðingarskrá. Þau innihéldu upplýsingar um konur sem greindust með MGS á árunum 2016-2018 og viðmiðunarhóp, þar sem ein kona var pöruð við hverja í rannsóknarahópnum. Þær voru paraðar m.t.t. aldurs og hvort móðir var frumbyrja eða fjölbyrja. Fyrir rannsóknarhóp voru fastandi blóðsykurgildi sótt og skráð úr Heilsugátt og konunum skipt í fjóra hópa eftir fastandi blóðsykurgildum: <5,1 (konur sem greinast seinna á meðgöngu með MGS), 5,1-5,2, 5,3-5,5 og 5,6 mmól/l. Notast var við tvíkosta aðhvarfsgreiningu til að reikna gagnlíkindahlutfall fyrir líkur á ýmsum fylgikvillum eftir þessum hópum.
    Niðurstöður: Líkamsþyngdarstuðull við fyrstu mæðraskoðun mældist hærri í hverjum hópi. Líkurnar á framköllun fæðingar hækkuðu marktækt í hverjum hópi en ekki var marktækur munur á tíðni annarra fæðingarinngripa. Líkur á meðgönguháþrýstingi voru marktækt meiri hjá efri tveimur hópunum en líkur á meðgöngueitrun voru einungis marktækt meiri hjá <5,1 hópnum. Tíðni vatnslegs, blóðsykursfalls nýbura og axlarklemmu var hærri í öllum rannsóknarhópum en viðmiðunarhópi en var ekki marktækur samanburður á öllum hópum. Ekki var marktækur munur á öðrum fylgikvillum nýbura. Konur sem mældust með 5,3-5,5 voru u.þ.b. tvöfalt líklegri til þess að fara á lyf við MGS, samanborið við lægri gildi, og þær sem mældust með 5,6 u.þ.b. fjórfalt líklegri. Líkurnar á nánast öllum fylgikvillum lækkuðu þegar leiðrétt var fyrir líkamsþyngdarstuðli.
    Umræður: Líkur á hinum ýmsu fylgikvillum sem tengdir eru MGS eru meiri hjá konum með greininguna borið saman við viðmiðunarhóp. Líkurnar á sumum þessarra fylgikvilla hækka jafnframt meira eftir því sem fastandi blóðsykursgildi, á fyrri hluta meðgöngu, mælist hærra. Þar má t.d. nefna meðgönguháþrýsting og blóðsykurfall nýbura. Ef blóðsykur mælist <5,3 eru aukast líkur á að þurfa lyfjameðferð við MGS verulega. Tíðni á framköllun fæðingar eykst einnig eftir því blóðsykursgildið hækkar. Samkvæmt klínískum leiðbeiningum er fæðing framkölluð við 39-40 viku hjá konum sem eru á lyfjum við MGS en við 40-41 viku hjá konum sem ekki eru á lyfjum, en fyrr ef fylgikvillar eins og t.d. háþrýstingur koma upp. Því fara hækkandi tíðni fylgikvilla og framköllun á fæðingu saman.

Samþykkt: 
  • 20.5.2019
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/33114


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Yfirlysing.pdf10.33 MBLokaðurYfirlýsingPDF
BSskil- KristínHaralds.pdf1.42 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna