is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/23085

Titill: 
  • Sjónarhorn austur-evrópskra mæðra á velgengni barna sinna í íslenskum grunnskólum
Námsstig: 
  • Meistara
Höfundur: 
Útdráttur: 
  • Víðast hvar eru sterk tengsl milli uppruna og stéttarstöðu nemenda annars vegar og námsárangurs í samræmdu námsmati hins vegar. Þessi tengsl mældust lengst af frekar veik á Íslandi en þau hafa styrkst á síðustu árum. Börn innflytjenda og lægri stétta standa verr að vígi en önnur börn þegar félags- og námsleg staða þeirra er skoðuð. Á sama tíma hafa kröfur skólayfirvalda aukist gagnvart foreldrum í formi sjálfboðavinnu foreldra í skólastarfinu, í gegnum aukið heimanám barna þeirra og áherslu á hagsmunagæslu foreldra fyrir hönd barna sinna. Þrátt fyrir að hið kynhlutlausa hugtak foreldrar sé notað, bera mæður gjarnan hitann og þungann af þessari vinnu en virkni þeirra er þó misjöfn eftir bakgrunni og aðstæðum. Umræða um innflytjendafjölskyldur er einhæf á Íslandi og nánast gert ráð fyrri slæmu gengi innflytjendabarna í skóla en með samtvinnun mismununarbreyta má sjá að breytileiki er innan hópsins. Þann breytileika er mikilvægt að skoða nánar.
    Í þessari rannsókn er leitast við að skilja hvernig mæður af austur-evrópskum uppruna styðja við börn sín sem teljast standa vel, bæði náms- og félagslega, í sínu skólasamfélagi. Rannsóknin byggir á eigindlegum viðtölum við fimm mæður af austur-evrópskum uppruna sem allar eiga börn í grunnskóla og vegnar vel að mati þriðja aðila á þeim vettvangi. Úrvinnsla og túlkun gagna byggir á hugtakalíkani Bourdieu um vettvang, auðmagn og habitus með áherslu á stétt og uppruna. Einnig var unnið úr opinberum tölfræðilegum gögnum til þess að fá skýrari mynd af því hvar þessar fjölskyldur eru staðsettar í hinu félagslega rými skoðað út frá reykvísku samhengi.
    Við greiningu viðtala kom fram að sá menningarauður sem mótað hefur habitus þeirra nýttist þeim markvisst í að yfirvinna hindranir sem þekktar eru meðal foreldra af erlendum uppruna. Þær höfðu sjálfar upplifað velgengni í námi í sínu heimalandi og bjuggu yfir miklu sjálfsöryggi í samskiptum við skóla barna sinna. Í ljós kom að allar þessar mæður voru langskólagengnar og höfðu flestar slíkan uppruna, þ.e. áttu langskólagengna foreldra sem sinntu sérfræðistörfum, og þær voru fljótar að átta sig á leikreglum menntavettvangsins á Íslandi og leiðum til að styðja börnin í skólanum.

Samþykkt: 
  • 1.10.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/23085


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Åse Vivås.pdf1.56 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna