is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/28180

Titill: 
  • Samfelld blóðskilunarmeðferð á gjörgæsludeildum Landspítala - Árangur skipulagðrar fræðslu fyrir hjúkrunarfræðinga
  • Titill er á ensku Continuous renal replacement therapy in intensive care unit - Results of structured training for nurses
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Ágrip
    Bráð nýrnabilun er algengari meðal gjörgæslusjúklinga sem hefur kallað á aukna notkun á samfelldri blóðskilun. Eitt af hlutverkum hjúkrunarfræðinga á gjörgæsludeildum er að hafa umsjón með samfelldri blóðskilun sem krefst sérhæfðrar þekkingar. Ekki eru til alþjóðleg hæfniviðmið sem hægt er að styðjast við í kennslu á samfelldri blóðskilun. Því er kennsluefni og leiðbeiningar til handa hjúkrunarfræðingum á ábyrgð hverrar gjörgæsludeildar fyrir sig.
    Megintilgangur rannsóknarinnar var að efla fræðilega þekkingu og verklega færni hjúkrunar-fræðinga með því að þróa fræðsluefni með verkþjálfunaraðferð sem gæti aukið almenna hæfni þeirra í vinnum með samfellda blóðskilun og þannig aukið öryggi sjúklinga með bráða nýrnabilun á gjörgæsludeildum.
    Notuð var hugmyndafræði verkþjálfunar (e. Training Within Industry) við hönnun fræðilegs námsefnis og skipulag verklegrar þjálfunar. Fræðsluefnið samanstóð af fræðilegum texta, kennslumyndböndum og aðgangi að heimasíðu framleiðanda blóðskilunarvélar. Aðferðafræði matsrannsókna (e. evaluations study) var notuð til að meta árangurinn af þjálfuninni. Rannsóknin fór fram á gjörgæsludeildum Landspítala frá október 2016 til janúarloka 2017. Úrtakið voru starfandi hjúkrunarfræðingar á gjörgæsludeildum Landspítala. Notaður var spurningalisti frá Przybyl og félögum frá árinu 2015 sem kannaði fræðilega þekkingu og verklega færni hjúkrunarfræðinga við samfellda blóðskilunar¬meðferð ásamt viðhorfi þeirra til eigin hæfni við meðferðina. Gögnin voru greind með lýsandi tölfræði.
    Svörun var 32% og meðalstarfsaldur hjúkrunarfræðinga á gjörgæsludeilum var 10,7 ár. Fræðileg þekking hjúkrunarfræðinga á samfelldri blóðskilunarmeðferð jókst, sérstaklega hvað varðaði viðbrögð við hjartastoppi hjá sjúklingum í samfelldri blóðskilun. Eigið mat þátttakenda á verklegri færni jókst úr 44,6 stigum í 64,2 stig og mat á eigin hæfni við að leysa vandamál er tengdust samfelldri blóðskilun jókst úr 44,4 stigum í 64 stig. Hjúkrunarfræðingar voru jafnframt allir ánægðir eða mjög ánægðir með fræðsluefni og verklega þjálfun rannsóknarinnar.
    Niðurstöður benda til þess að beita megi hugmyndafræði verkþjálfunar til að auka fræðilega þekkingu og færni hjúkrunarfræðinga á samfelldri blóðskilunarmeðferð og breyta viðhorfi þeirra til eigin hæfni með auknum skilningi á viðfangsefninu.
    Lykilorð: Samfelld blóðskilun, gjörgæsluhjúkrun, verkþjálfunaraðferð, kennsla

Samþykkt: 
  • 12.6.2017
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/28180


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Yfirlýsing_Loaverkefni.pdf300.89 kBLokaðurPDF
Samfelld blóðskilun á gg.deildum LSH(pdf).pdf3.61 MBOpinnPDFSkoða/Opna