is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/10066

Titill: 
  • Viður-eign Verunnar. Fyrirbærafræði Heideggers til bjargar mannkyninu
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Í þessari ritgerð ætla ég að fjalla um ákveðið heimspekihugtak eða fyrirbæri sem Heidegger kallar Ereignis og ég þýði með íslenska orðinu Viður-eign, en ég fer nánar út í þýðinguna hér á eftir. Þetta hugtak tilheyrir seinni tíma Heidegger og birtist víða í ritum hans, en það er fyrst í ritinu Framlög til heimspekinnar (Um Viður-eignina) (Beiträge zur Philosophie (Vom Ereignis)) sem heil bók er tekin undir efnið. Það er nauðsynlegt að fara yfir grunn fyrirbærafræðinnar til að skilja hvaðan Heidegger hefur fengið kveikjuna að hugmyndum sínum um Viður-eign, og feta sig þaðan að þeim hugsunarhætti sem Heidegger kynnir til sögunnar, með þeim nauðsynlegu hléum og útúrdúrum sem þarf á að halda til að skilja efnið betur. Ég vonast til að geta varpað ljósi á hugmyndir Heideggers um Viður-eignina sem aðferð sem maðurinn gæti tileinkað sér til að fá nýjan útgangspunkt í líf sitt, og sleppa við firringu tæknivædds heims.
    Mikilvægustu rannsóknarspurningarnar eru annars vegar um Viður-eignina (Ereignis) og hvort hún sé manninum nothæft tæki til verurannsókna, til endurnýjunar hugsana og í baráttu við klisjur og firringu. Hins vegar er vert að kanna hvort Framlögin bæti einhverju við þá heimspeki Heideggers sem þegar hafa birst í öðrum ritum hans.
    Í ritgerðinni eru, auk inngangs og lokaorða, fjórir meginkaflar: Viður-eign, Um Framlögin, Sköpun og Flótti guðanna. Viður-eign hefst á sögulegu yfirliti yfir þróun á heimspeki fyrri tíma Heideggers, eins og til dæmis í Veru og tíma, til seinni tíma Heideggers, eins og til dæmis í Framlögunum. Þá er Viður-eignin eða Ereignis útskýrt og farið yfir hvar hugtakið má finna í ritum Heideggers. Í þriðja kafla, Um Framlögin, geri ég grein fyrir ritinu Framlög til heimspekinnar (Um Viður-eignina) og fer yfir bakgrunn Heideggers í fyrirbærafræði, og hvernig hann nýtti sér tæki fyrirbærafræðinnar ásamt hugmyndum sínum um þörf á nýju tungumáli til að móta hugmynd sína um aðra byrjun. Í fjórða kaflanum, Sköpun, er áherslan á mikilvægi ljóðskálda og sköpunar fyrir kenningu Heideggers um Viður-eignina, og hvernig sköpunarkraftur nýrra orða býr að lokum til þá opnun sem hugsun okkar þarf á að halda til að komast í nauðsynlegt flæði til að nálgast Veruna. Fimmti kaflinn er tileinkaður guði eða skorti á honum, og einnig fer ég yfir austræn áhrif á kenningar Heideggers. Í lokaorðunum reyni ég að draga saman aðalatriði hugmyndar Heideggers um Viður-eignina og fer yfir möguleg svör við þeim spurningum sem ég lagði af stað með. Ég velti fyrir mér hvort Heidegger hafi tekist að búa til aðferð fyrir manninn til að viðhalda ferskleika hugmynda sinna, í sífellt flóknari heimi, og hvort Framlögin bæti raunverulega einhverju við þá heimspeki sem kom út á höfundaferli hans.
    Sökum þess hve textinn sem Heidegger skrifar í Framlögunum er tyrfinn og tilraunakenndur er nauðsynlegt er að skoða hann í samhengi við aðra texta Heideggers sem ritaðir voru á undan og á eftir til að ná betur utan um inntak hans. Þá er gagnlegt að rýna í aðra texta Heideggers eins og „Tímabil heimsmyndanna”, „Bréf um mannhyggju“ og „Uppruna listaverksins“ til að átta sig á hugsun Heideggers. Þessi rannsókn færir mig á slóðir tungumálsins og mikilvægis þess fyrir heimspeki og rannsóknir Heideggers, og gerir mér kleift að drepa niður fæti hjá nokkrum öðrum hugsuðum sem vert er að bera hann saman við.

Samþykkt: 
  • 15.9.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/10066


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Heida Eiriksdottir_MA.pdf402.19 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna