Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/10128
Sýnt er að langvinnir verkir hafa mikil áhrif á líf þess sem hefur verki, hans nánustu aðstandendur og samfélagið allt. Langvinnir verkir skerða lífsgæði og eru kostnaðarsamir fyrir einstaklinginn og samfélagið.
Í þessari rannsókn er gerð kostnaðarnytjagreining á verkjasviði Reykjalundar samanborið við hefðbundna meðferð út frá samfélagslegu sjónarhorni. Ekki gafst kostur á viðmiðunarhópi, heldur eru niðurstöður fyrir tímabil meðferðar nýttar sem viðmið fyrir hefðbundna meðferð og árangur eftir meðferð á Reykjalundi borinn saman við þær. Þátttakendur (115) svöruðu spurningalistum sex vikum fyrir innlöng, við innlögn, við útskrift, ári eftir útskrift og þremur árum eftir útskrift (56). Auk þess var gögnum um notkun á heilbrigðisþjónustu og bótastöðu safnað frá Tryggingastofnun ríkisins og notkun lyfja úr Lyfjagangagrunni Landlæknis.
Út frá samfélagslegu sjónarhorni, miðað við þriggja ára tímaramma, þegar meðferð á verkjasviði Reykjalundar er borin saman við hefðbundna meðferð, er niðurstaðan sú að meðferðin á Reykjalundi sé ódýrari, 276.652 kr. á einstakling, og skili einnig aukningu í lífsgæðavegnum lífárum (QALY), 0,15, miðað við hefðbundna meðferð. Því er hægt að segja að meðferðin á Reykjalundi sé ráðandi (dominates) miðað við hefðbundna meðferð. Niðurstöðurnar virðast ekki vera næmar fyrir breytingum á forsendum greiningarinnar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Héðinn Jónsson.pdf | 1.07 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |