is Íslenska en English

Lokaverkefni Háskóli Íslands > Þverfræðilegt nám > Lýðheilsuvísindi >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/10204

Titill: 
 • Líkamleg heilsa kvenna í tengslum við námskeiðið „Njóttu þess að borða.“ Meðferð byggð á hugrænni atferlismeðferð fyrir konur í yfirvigt
Útdráttur: 
 • Bakgrunnur: Offita er eitt stærsta lýðheilsuvandamálið í heiminum í dag og hefur tíðni hennar aukist mikið síðustu 20-30 árin. Offita hefur áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu og eykur líkur á dauða. Hugræn atferlismeðferð hefur reynst gott meðferðarúrræði við offitu vegna viðunandi langtímaáhrifa. Skortur er á meðferðarúrræðum fyrir einstaklinga í offitu innan grunnheilbrigðisþjónustunnar á Íslandi.
  Markmið: Að skipuleggja og forprófa 15 vikna námskeið byggt á hugrænni atferlismeðferð og þjálfun svengdarvitundar fyrir konur í yfirvigt og skoða áhrif þess á þyngd, líkamsþyngdarstuðul, fituhlutfall, fitumagn, blóðþrýsting, blóðfitur, blóðsykur ásamt járn- og D-vítamín búskap þátttakenda.
  Aðferð: Rannsóknin var íhlutunarrannsókn og voru áhrif íhlutunar skoðuð á tveimur hópum, hóp A og B. Hópur A fór í gegnum námskeiðið, sem fékk nafnið „Njóttu þess að borða“, meðan hópur B var til samanburðar. Síðan var víxlrannsóknarsniði beitt og hópur B varð íhlutunarhópur seinni hluta rannsóknar. Í þægindaúrtakinu voru 20 konur á aldrinum 19-44 ára með líkamsþyngdarstuðul á bilinu 30-39,9 kg/m² og var þeim skipt tilviljunarkennt í hópana tvo. Námskeiðið var fólgið í 14 hóptímum og þremur einstaklingstímum.
  Mælingar: Mælingar á þyngd, líkamsþyngdarstuðli, fituhlutfalli og fitumagn, blóðþrýstingi, kólesteróli, þríglýseríði, háþéttni fitupróteini, glúkósa, langtímablóðsykri (HbA1c), serum járni og D-vítamíni (25 (OH)D) voru framkvæmdar fyrir og eftir námskeið. Eftirfylgd er áætluð sex og 12 mánuðum eftir námskeiðið þar sem framkvæmdar verða sömu mælingar. Spurningalisti um bakgrunn þátttakenda var lagður fyrir í upphafi og í lokin voru þátttakendur beðnir um að leggja mat á námskeiðið.
  Niðurstöður: Tölfræðilega marktæk lækkun hjá íhlutunarhópunum var á þyngd (P=0,001), líkams-þyngdarstuðli (P=0,001), fituhlutfalli (P=0,010), fitumagni (P=0,002), neðri mörkum blóðþrýstings (P=0,005) og aukning á gildi D-vítamíns (P=0,008) eftir námskeiðið. Meðalþyngdartap var 3,1 kg. hjá íhlutunarhópi A samanborið við 0,5 kg. hjá samanburðarhópi en sá munur náði ekki tölfræðilegri marktækni né aðrar breytur milli íhlutunarhóps og samanburðarhóps.
  Ályktun: Námskeiðið „Njóttu þess að borða“ gæti lagt lóð á vogarskálina í baráttunni við offitu og það gæti hentað sem eitt af úrræðum heilbrigðisþjónustunnar en bíða verður eftirfylgdar rannsóknarinnar til að meta langtímaárangur námskeiðsins.
  LYKILORÐ: Obesity, Cognitive Behavior Therapy, Appetite Awareness Training, Program.

Samþykkt: 
 • 7.10.2011
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/10204


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Helga Lárusdóttir.pdf2.93 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna