Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/10226
Rannsóknir hafa sýnt að bleikju í Elliðavatni hefur fækkað ár frá ári síðan 1987, meðan afli urriða hefur haldist stöðugur (Þórólfur Antonsson og Guðni Guðbergsson 2000, Þórólfur Antonsson o.fl. 2005). Hér á landi eru þekktar fimm tegundir ferskvatnsfiska, en auk bleikju Salvelinus alpinus (L.) og urriða Salmo trutta (L.) eru það lax Salmo Salar (L.), hornsíli Gasterosteus aculeatus og áll Anguilla anguilla (Guðni Guðbergsson 2004).
Bleikja og urriði nýta yfirleitt ólík búsvæði í stöðuvötnum. Í búsvæðavali skipta umhverfisaðstæður miklu máli. Bestu aðstæðurnar fyrir eina tegund fiska geta verið óhentugar fyrir aðra. Þau skilyrði sem móta búsvæði í stöðuvötnum eru m.a. botngerð, hiti og næringarefni en aðrir þættir svo sem dýpi, gróðurfar, lögun vatnskálarinnar og ljósgleypni vatnsins skipta einnig máli. Bleikjan getur þrifist vel á hrjóstrugum köldum svæðum og hefur yfirleitt betur í samkeppni við urriða á þeim svæðum. En í frjósamari vötnum, þar sem strauma gætir, er urriði oftast ríkjandi (Guðni Guðbergsson og Þórólfur Antonsson 1996).
Markmið verkefnisins var að gera samanburð á bleikju- og urriðastofnum Elliðavatns, Hafravatns og Vífilstaðavatns, með það að leiðarljósi að kanna hlutföll þessara tveggja tegunda og hvort munur á stofnvísitölu og tegundasamsetningu bleikju og urriða mótist af umhverfi, fæðuframboði og/eða samkeppni tegundanna. Niðurstöður rannsókna 2005 voru bornar saman við eldri gögn (Bjarni Jónsson 1998 og Yfirlitskönnun íslenskra vatna, óbirt gögn). Um er að ræða tvö grunn lindarvötn, Elliðavatn og Vífilstaðavatn og eitt djúpt dragvatn, Hafravatn. Í Elliðavatni er mesta dýpi um 2 metrar en í Vífilstaðavatni er meðaldýpi um hálfur metri. Mesta dýpi Hafravatns er 28 metrar, en meðaldýpi þess 8 metrar. Bleikja, urriði, hornsíli og áll eru í öllum vötnunum, en lax hefur bara fundist í Elliðavatni og Hafravatni. Stangveiði er stunduð í öllum vötnunum, en áhrif hennar á stærð og samsetningu stofnanna er talin vera lítil. Veiði bleikju í Elliðavatni minnkaði á meðan veiði urriða hefur haldist í stað (Veiðimálastofnun, opinberar tölur, www.veidimal.is). Öll vötnin eru á láglendi í nágrenni Reykjavíkur og fóstra stofna bleikju og urriða.
Töluverðar breytingar á vísitölu stofnstærðar bleikju, metið sem afli á sóknareiningu, hafa átt sér stað í öllum vötnunum. Afli bleikju á sóknareiningu í Elliðavatni hefur farið minnkandi á meðan aflinn hefur haldist stöðugur hjá urriða. Í Hafravatni hefur afli urriða á sóknareiningu aukist meðan bleikjuaflinn hefur haldist stöðugur. Í Vífilstaðavatni hefur afli bleikju á sóknareiningu minnkað meðan urriðaaflinn hefur haldist stöðugur. Vaxtarhraði bleikju og urriða í Elliðavatni hefur lítið breyst síðan 1993. Í Hafravatni hefur vaxtarhraði hjá 5 og 6 ára bleikju minnkað síðan 1998, á meðan vaxtarhraðinn hefur aukist hjá 4, 5 og 6 ára urriða. Bleikjan í Vífilstaðavatni sýndi afgerandi breytingar á vaxtarhraða, sem komu fram í því að vaxtarhraði hefur aukist verulega síðan 1998, en vaxtarhraði urriða hefur haldist svipaður.
Þrátt fyrir að bleikjustofninn í Elliðavatni hafi minnkað, hefur holdafar bleikjunnar ekki breyst síðan 1993. Á sama tíma hækkaði holdafarsstuðull urriða sem var á lengdarbilinu 35-50 cm. Marktæk hækkun var á holdafarstuðli bleikju og urriða sem voru á lengdarbilinu 10-30 cm í Hafravatni. Í Vífilstaðavatni var einnig hækkun á holdafarstuðli beggja tegunda, sem voru á lengdarbilinu 20-35 cm, þó heldur minni hækkun á holdafarsstuðli bleikju.
Greining á magainnihaldi úr bleikju og urriða úr Elliðavatni sýndi að vatnabobbi, Lymnaea peregra, var aðal fæða beggja tegundanna, sem var þó ekki marktækt. Í Hafravatni var ekki munur á fæðu bleikju og urriða, en þó hafa orðið breytingar á aðalfæðu, þegar bornar eru saman niðurstöður frá 1998 og 2005. Helstu breytingarnar eru að fæða bleikjunnar virðist hafa breyst frá því að vera ríkjandi rykmý yfir í krabbadýr séu ríkjandi í fæðunni. Á hinn bóginn breyttist fæða urriðans frá því vera með hornsíli ríkjandi í fæðunni í það að vorflugulirfur voru ríkjandi. Engar breytingar voru mælanlegar á fæðu bleikju og urriða í Vífilstaðavatni í samanburðinum frá 1998 og 2005.
Þegar breytingar verða milli tímabila er mikilvægt að vita hvort breytingar hafi orðið á öðrum stofnum innan vatnanna. Breytileiki var á fjölda smádýra á mili tímabilanna, bæði á botni og í svifi. Þó voru þessar breytingar ekki marktækar, fyrir utan fjölda svifdýra per 10 lítra í Vífilstaðavatni.
Niðurstöðurnar benda til þess að lífssaga bleikju og urriða mótist af umhverfi vatnanna og að breytingar hafi orðið frá 1993 til 2005 í Elliðavatni og frá 1998 til 2005 í hinum vötnunum. Í öllum vötnunum hefur bleikju fækkað, en urriði staðið í stað eða honum fjölgað. Minnkun á stofnvísitölu bleikju virðist ekki enduspeglast í breyttum vaxtarhraða, fæðu né í minnkuðu holdafari. Ástæður þessara breytinga eru ekki að fullu kunnar en geta bent til minnkunar á nýliðun eða verri afkomu ungviðis og seiða. Hækkun hita síðastliðin ár hefur verið lögð fram sem ástæða fækkunar hennar í Elliðavatni (Haraldur Rafn Ingvason 2006). Norræn útbreiðsla bleikju gerir hana viðkvæmari fyrir breytingum á hitastigi en urriði. Frekari rannsóknir á fyrstu lífsstigum bleikju eru nauðsynlegar til að ákvarða ástæður fækkunar hennar ennfrekar.
The stocks of Arctic charr have shown a gradual decline in annual monitoring of Lake Ellidavatn during the period of 1987-2005 (Antonsson & Gudbergsson 2000, Antonsson et al. 2005). A comparison of the ecology of the Arctic charr, Salvelinus alpinus (L.) and brown trout, Salmo trutta (L.) in lowland lakes in southwest Iceland (Lake Ellidavatn, Lake Hafravatn and Lake Vifilstadavatn), with respect to stock size, stock composition, food and invertebrate abundance in 2005 to previous comparable studies show a decline of Arctic charr, while no changes were observed in brown trout. Despite the decline in number of Arctic charr, its body condition had not deteriorated. In Lake Hafravatn the growth rate for older Arctic charr has decreased, while the opposite happened for brown trout. Growth rate for Arctic charr in Lake Vifilstadavatn increased, but stayed similar for brown trout during the monitoring period. In Lake Vifilstadavatn, there was a significant increase in abundance of zooplankton. The results indicate that lower stock size of Arctic charr in these lakes, is not reflected in growth rate, body condition nor diet at least within adult stages. This may however indicate lower recruitment or lower survival during the first life stages of Arctic charr.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
B.Sc.(Hons).pdf | 2.23 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |