Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/10242
Holdafar hefur áhrif á heilsu fólks. Ofþyngd er tengd ýmsum lífsstílssjúkdómum, ótvíræð tenging hennar við efnaskiptavillu hefur þegar verið sýnd. Minna hefur verið rannsakað að hátt hlutfall fitu af líkamsþyngd hefur áhrif til aukinnar hættu á efnaskiptavillu þrátt fyrir að einstaklingur sé í kjörþyngd.
Markmið rannsóknarinnar var að skoða líkamsástand og næringu 18 ára stúlkna í framhaldsskóla. Holdafar var metið með hæðar-, og þyngdarmælingum og líkamsþyngdarstuðull (BMI) reiknaður (kg/m2). DXA (tvíorku röntgengeislagleypni) mæling var gerð til að meta líkamssamsetningu. Blóðþrýstingur var mældur, blóðprufur teknar og áhættuþættir efnaskiptavillu skoðaðir. Stúlkurnar fóru í þrekpróf þar sem hámarks súrefnisupptaka var mæld og þrek metið. Tekið var næringarviðtal þar sem stúlkurnar rifjuðu upp næringarinntöku síðustu 24 stunda. Einnig svöruðu stúlkurnar spurningalista um lífsstíl, fæðuvenjur og þekkingu á næringu.
Af 130 stúlkum luku 118 mælingum í DXA. Við tölfræðiúrvinnslu að loknum mælingum var stúlkunum skipt í þrjá hópa: BMI<25 og fita<30% (KÞ), BMI<25 og fita >30% (NWO) og BMI>25 og fita >30% (OÞ). Niðurstöður leiddu í ljós að í hópi KÞ voru 44% (n=52), í NWO voru 37,3% (n=44) og í OÞ voru 18,7% (n=22). Munur var á ummáli mittis (p<0,001) og NWO reyndist hafa meiri búkfitu en KÞ (p<0,001), og OÞ hafði meiri búkfitu en hinir hóparnir (p<0,001). Hjá öllum hópum reyndist munur á heildarkólesteróli (p=0,025), HDL-kólesteróli (p<0,001) og LDL-kólesteróli (p<0,001) milli hópa. Insúlíngildi við föstu reyndist marktækt hærra hjá hópunum með hátt fituhlutfall (p=0,001). Hlutfallslega fæstar stúlkur í hópi KÞ reyndust hafa áhættuþætti efnaskiptavillu (78,4% engann) en tæplega helmingur NWO og 90 % OÞ höfðu einn eða tvo þætti. Þrek KÞ var marktækt meira en hinna hópanna (p<0.001) Samkvæmt niðurstöðum næringarviðtala reyndust stúlkur í hópi OÞ borða fæstar hitaeiningar (1677 kcal/dag) en stúlkur í KÞ og NWO innbyrtu svipað magn (2209 vs 1937 kcal/dag). Samkvæmt spurningalista reyndist ekki marktækur munur á neyslu einstakra matvæla.
Niðurstaða þessarar rannsóknar er að hátt hlutfall stúlkna á framhaldsskólaaldri eru í kjörþyngd en með fituhlutfall yfir æskilegum mörkum. Líkamsgerð þeirra svipar meira til stúlkna sem eru yfir kjörþyngd en þeirra sem eru í kjörþyngd með fituhlutfall innan æskilegra marka. Þær eru í meiri áhættu að fá efnaskiptavillu og aðra lífsstílssjúkdóma en stúlkur í kjörþyngd með fituhlutfall innan æskilegra marka.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
lokaritgerd_og_fylgiskjol_laragunndis_19mai2010_endanlegt_skemmaogprentun[1].pdf | 6.57 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |