Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/10310
Í þessari ritgerð er fjallað um starfsþróun leikskólakennara. Litið hefur verið á starfsþróun sem leið til að auka hæfni, styrkja faglegt sjálfstraust og starfsánægju. Markmiðið er að varpa ljósi á þá þætti, sem skipta mestu máli fyrir starfsþróun leikskólakennara, og fá betri skilning á því hvernig best er að styðja leikskólakennara til faglegrar þróunar í starfi. Lagt var upp með að svara rannsóknarspurningunum um hvort starfsþróun hafi áhrif á faglegt sjálfstraust leikskólakennara og hvaða áhrif niðurskurður hefði á tækifæri til starfsþróunar. Reynt var að varpa ljósi á hvað það er sem hvetur og letur leikskólakennara þegar kemur að starfsþróun og hvaða áhrif leikskólastjóri hefur í því samhengi.
Gerð var eigindleg rannsókn og tekin hálfopin viðtöl við 6 leikskólakennara með mislangan starfsaldur í tveimur leikskólum í tveimur sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Með viðtölum og textagreiningu var fengin mynd af viðhorfum leikskólakennaranna til starfsþróunar. Niðurstöður viðtalanna voru m.a. bornar saman við kenningu Alberts Bandura um faglegt sjálfstraust. Niðurstöðurnar benda til þess að starfsþróun styrki faglegt sjálfstraust leikskólakennara en að niðurskurður hafi dregið úr möguleikum kennara til faglegrar ígrundunar og umræðna í leikskólunum og nú sé eingöngu tími til að miðla helstu upplýsingum.
Hvetjandi þættir eru til að mynda þróunarverkefni, að takast á við breytingar, s.s. deildarstjórn eða annan aldurshóp barna. Letjandi þættir eru miklar fjarvistir vegna veikinda og minni tími til samræðna og ígrundunar. Skipulagsdagar og undirbúningstímar duga ekki til skipulagningar á starfinu og skipulegrar starfsþróunar sem t.d. felst í námskeiðum, handleiðslu, ígrundun og umræðum. Leikskólastjórar og starfsfólk leikskólanna hafi reynt að standa vörð um starfið með börnunum og tryggja leikskólakennurum undirbúningstíma og hvetja til starfsþróunar. Töldu viðmælendur að komið væri að þolmörkum ef faglegt starf í leikskólum ætti ekki að bera skaða af.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Ólafía Guðmundsdóttir.pdf | 745.22 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |