is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/10352

Titill: 
 • Frávik frá meginreglunni um sönnunarbyrði tjónþola í skaðabótamálum
Námsstig: 
 • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Skaðabótalögin eru fáorð um sönnunarbyrði í skaðabótamálum. Reglur um sönnunarbyrði hafa þ.a.l. fyrst og fremst mótast með dómaframkvæmd og af skrifum fræðimanna. Meginreglan sem almennt er talin gilda á sviði skaðabótaréttar er að sönnunarbyrðin hvílir á tjónþola, þ.e. þeim sem krefst bóta. Í meginreglunni er venjulega talið felast að tjónþoli þurfi að sanna þrennt: að hann hafi orðið fyrir tjóni, að tjón hans sé vegna hegðunar sem meintur tjónvaldir ber ábyrgð á að lögum og að tjónið sé afleiðing af þeirri háttsemi.
  Þrátt fyrir skýra meginreglu er ljóst að þegar dómari metur hvort skaðabótaábyrgð sé til staðar byggir hann niðurstöðu sína á heildarmati á öllum þeim gögnum sem koma fram undir rekstri máls, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Atvik máls og sönnunarfærsla fyrir dómi geta þannig gefið tilefni til að víkja frá eða slaka á hefðbundnum sönnunarkröfum. Slíkt getur orðið til þess að vikið sé frá meginreglunni um sönnunarbyrði og tjónþola hlíft við sönnun um tiltekin atvik eða atriði. Tilslökun á kröfum til sönnunar getur birst á öllum þremur ásum hennar, þ.e. sönnun tjóns, bótagrundvallar og orsakatengsla.
  Engin almenn og fyrirvaralaus regla gildir um hvenær dómstólar víkja frá framangreindri meginreglu og létta sönnunarbyrðinni af tjónþola. Mikill fjöldi skaðabótamála er rekinn fyrir dómstólum og fjölbreytileiki þeirra er mikill. Aðstæður í einstökum málum geta verið með þeim hætti að beiting þess verklags sem meginreglan byggir á hentar afar illa þar sem sönnun af hálfu tjónþola er vandkvæðum bundin. Ástæður þess geta verið af ýmsum toga, þær geta varðað tjónið, tjónþola, meintan tjónvald eða atvik að öðru leyti. Dómstólar geta brugðist við slíkum sönnunarörðugleikum með því að sýkna meintan tjónvald af kröfum tjónþola en einnig með því að hliðra til um sönnun tjónþola í vil. Í þessari ritgerð verður gerð tilraun til að varpa ljósi á í hvaða tilvikum dómstólar víkja frá meginreglunni um sönnunarbyrði tjónþola í skaðabótamálum.
  Í 2. kafla ritgerðarinnar verður fjallað um athafnir eða athafnaleysi tjónvalds í kjölfar slyss sem getur haft þær afleiðingar að sönnunarbyrðin er felld á hann varðandi umdeild atriði. Í kafla 3 verður fjallað um tilvik þar sem sönnunarbyrðin er lögð á þann aðila sem á auðveldara með að sanna. Í 4. kafla er gerð grein fyrir „res ipsa loquitur” sönnunarreglunni sem stuðst er við í mörgum löndum og tekið til skoðunar hvort reglan eigi sér stoð í íslenskum rétti. Í kafla 5 er fjallað um sönnunbyrði um orsakatengsl þegar búið er að sanna tjón og bótagrundvöll og sérstaklega skoðað svið sérfræðiábyrgðar í því samhengi. Í 6. kafla verða helstu niðurstöður ritgerðinnar raktar.

Samþykkt: 
 • 13.12.2011
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/10352


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Forsíða.pdf126.52 kBLokaðurForsíðaPDF
Frávik frá meginreglunni um sönnunarbyrði tjónþola í skaðabótamálum.pdf279.6 kBLokaðurMeginmálPDF