is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/10366

Titill: 
 • Um grundvöll og stöðu ábyrgðar ríkisins á greiðslu bóta til þolenda afbrota samkvæmt lögum nr. 69/1995 með hliðsjón af takmörkum skaðabótaréttar
Námsstig: 
 • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Það er grundvallarregla í skaðabótarétti að sá sem veldur tjóni eigi að bæta tjónþola fullum bótum allt það tjón sem hann hefur orðið fyrir, að því tilskyldu að skilyrðum um bótagrundvöllinn sé fullnægt. Raunin er á hinn bóginn sú að flest tjón sem verða á Íslandi og varða spjöll á mönnum og munum, eru þess eðlis að skaðabætur vegna þeirra greiðast ekki eftir skaðabótareglum utan samninga. Jafnvel þótt fyrir liggi að háttsemi tjónvalds sé skaðabótaskyld, getur tjónþoli ekki ávallt treyst því að fá greiddar þær skaðabætur sem hann á rétt á, ef tjónvaldur getur hvorki greitt kröfuna sjálfur né hefur ábyrgðartryggingu sem nær yfir tjónið. Í slíkum tilvikum koma skaðabótareglur að litlu haldi fyrir tjónþola. Tjónþoli þarf þó ekki í öllum tilvikum að bera tjón sitt bótalaust því löggjafinn veitir þeim, sem verða fyrir tjóni sem rakið er til brots á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, sérstaka vernd með lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, þó innan tiltekinna marka. Þótt lögin feli í sér mikilvæga réttarbót er staðreynd að stór hluti þolenda afbrota gengur með óbætt tjón því bótareglur laganna eru takmarkaðar.
  Margar áleitnar spurningar vakna þegar löggjöf um greiðslu ríkisins á bótum til þolenda afbrota er skoðuð. Er eðlilegt að ríkið gangist í bótaábyrgð vegna tjóns sem einstaklingur verður fyrir vegna refsiverðs verknaðar sem annar einstaklingur hefur gerst sekur um gagnvart honum? Hvað réttlætir ábyrgð ríkisins? Er ábyrgð ríkisins lagalegur réttur borgaranna vegna samsvarandi skyldu ríkisins, eða er skylda ríkisins einungis siðferðileg? Á ríkið að ábyrgjast greiðslu fullra bóta samkvæmt dómsorði eða á að takmarka fjárhæðir bótagreiðslna? Er unnt að afla fjár svo veita megi öllum tjónþolum víðtækan bótarétt? Í íslenskum fræðiskrifum hefur löggjöf um þessi efni og álitamál tengd hugmyndafræðilegum grundvelli hennar verið vanrækt. Sætir það furðu, einkum í ljósi þess um hve mikilvæga hagsmuni er að ræða, og einnig í samanburði við hve mikið hefur verið fjallað um sambærilega lagasetningu í öðrum vestrænum ríkjum. Frá því að frumvarp til laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota var samþykkt sem lög frá Alþingi í mars 1995 hafa lögin sætt nokkrum breytingum sem ganga í þá átt að takmarka réttinn samkvæmt þeim. Bera breytingar þessar vott um skort á skýrum hugmyndafræðilegum grundvelli laganna. Er því um brýnt umfjöllunarefni að ræða.
  Markmið ritgerðarinnar er annars vegar að skýra hlutverk og takmörk skaðabótareglna, og tengsl þeirra við bótaúrræði laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, og hins vegar að lýsa ábyrgð ríkisins og draga ályktanir um grundvöll og stöðu hennar. Niðurstaða ritgerðarinnar er sú að allar bótareglur eru háðar takmörkunum og að bótakerfi sem bætir öll tjón að fullu er vandfundið, enda réttlæti umdeilt hugtak. Hvað varðar ábyrgð ríkisins á greiðslu bóta til þolenda afbrota er niðurstaðan sú að ábyrgð íslenska ríkisins sé í anda siðferðilegrar skyldu vegna samkenndar og án réttarlegrar þýðingar fyrir borgarana, þótt af athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 69/1995 megi ráða að ábyrgðin sé í formi lagalegrar skyldu sem færi borgurunum lagalegan rétt.
  Ritgerðin er þannig uppbyggð að í kafla 2 er gerð grein fyrir hlutverkum skaðabótareglna, hugleiðingum um efni þeirra og takmarkanir, og tengslum þeirra við önnur bótaúrræði. Í kafla 3 er sjónum beint að þolendum afbrota og möguleikum þeirra til að fá tjón bætt. Fyrst er gerð grein fyrir þróun réttarreglna um aðkomu ríkisins að greiðslu bóta á erlendri grundu. Þá er fjallað um forsögu laga nr. 69/1995 og meginákvæðum þeirra lýst. Loks er ábyrgð ríkisins tekin til nánari skoðunar og fjallað um hugmyndafræðilegan grundvöll hennar með hliðsjón af erlendri löggjöf um sama efni. Í því sambandi er reynt að varpa ljósi á hvað geti réttlætt ábyrgð ríkisins og hvað felist í henni, þ.e. hvort litið sé á ábyrgð ríkisins á greiðslu bóta sem lagalega skyldu eða siðferðilega, auk þess sem fjallað er sérstaklega um stöðu íslensku laganna að þessu leyti. Að lokum eru niðurstöður ritgerðarinnar dregnar saman í kafla 4.

Samþykkt: 
 • 15.12.2011
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/10366


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Anna_Katrin_Ritgerd.pdf364.59 kBLokaðurMeginmálPDF
HI_kapa_logfreadi-AKS.pdf106.37 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna