Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/10378
Segja má að hlutverki kröfu sé lokið og hún liðin undir lok þegar greiðsla sú sem er efni kröfuréttindanna hefur farið fram. Krafan getur verið efnd á réttan hátt og kröfuhafi fengið fullar efndir en efndirnar geta verið upphafið að nýrri kröfu þar sem skuldari kröfu getur krafist þess að honum verði endurgreitt vegna sanngirnissjónarmiða. Spurning er hvort til sé meginregla um rétt til endurheimtu þess sem ofgreitt er eða hefur verið efnt umfram skyldu ? Skiptar skoðanir hafa verið á milli fræðimanna um það efni, er skoðað verður hér á eftir, í hvaða tilvikum beri að viðurkenna endurheimtukröfu og hvenær beri að hafna henni. Fyrirvari skuldara getur skipt miklu máli um rétt hans til endurheimtu. Sé greiðsla fyrirvaralaus er spurning hvort skuldari hafi þar með komið í veg fyrir rétt sinn til endurheimtu þess sem greitt var umfram skyldu. Þegar greitt hefur verið umfram skyldu kemur til skoðunar Rómarréttarreglan „condictio indebiti“ um endurheimtu þess sem ekki er skuldað. Byggir réttarreglan á þeirri meginreglu að endurheimtukröfur beri að viðurkenna. Lögfestar hafa verið nokkrar réttarreglur á tilteknum sviðum til endurheimtu fjárgreiðslna þegar greitt hefur verið umfram skyldu en endurkrafa getur líka komið til án beinnar lagaheimildar og verða þær skoðaðar. Síðustu ár hafa heimilin í landinu háð mikla baráttu við stjórnvöld og önnur fjármálafyrirtæki vegna mikilla hækkana á erlendum fasteigna- og bílalánum sem enginn gerði ráð fyrir í upphafi lántöku. Í kjölfar dóma Hæstaréttar árið 2010 um ólögmæti gengistryggðra lána og vaxtareikning slíkra lána hófst vinna að breytingu á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Með lögum nr. 151/2010 var gerð breyting á 18. gr. laga nr. 38/2001 og var fjármálafyrirtækjum gert skylt að endurútreikna gengistyggð lán sem nú voru orðin ólögmæt. Við ákvörðun um rétt til endurgreiðslu eða útreikning á stöðu skuldar var gert skylt að fara eftir reglum ákvæðisins og tímafrestur settur um greiðslu á kröfu um endurgreiðslu.
Fjöldi dóma hefur fallið um lögmæti gengistryggðra lána, bæði er varða heimili og fyrirtæki, fyrir og eftir breytinguna á 18.gr vaxtalaga. Fjallað verður um nokkra þeirra og þau álitaefni sem þar hafa komið upp. Einnig verður skoðað nýtt ákvæði sem sett var í breytingalögin nr. 151/2010 er varðar aðila- eða skuldaraskipti á lánssamningi sem inniheldur ólögmætt gengistryggingarákvæði og sjálfstæðan rétt skuldara.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Endurheimta ofgreiddrar kröfu og endurútreikningur gengistryggðra lána.pdf | 211.1 kB | Lokaður | Meginmál | ||
FORSÍÐA.pdf | 59.45 kB | Opinn | Forsíða | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing_Hrafnhildur.pdf | 444.13 kB | Lokaður | Yfirlýsing |