is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/10380

Titill: 
  • "Ef fjöreggið brotnar." Kynferðislegt ofbeldi gegn börnum, eftirlitsskylda í lögum og eftirlit í gegnum dómaframkvæmd
Námsstig: 
  • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Árið 1996 var haldin alþjóðleg ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um kynferðislega misnotkun á börnum. Ráðstefnan, sem haldin var í Stokkhólmi, vakti heimsathygli. Í kjölfarið átti sér stað hér á landi talsverð umræða um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og þá hvort staða barna sem þolendur kynferðisafbrota væri nægilega tryggð. Heggur sá er hlífa skyldi, skýrsla um kynferðisafbrot gegn börnum var gefin út af umboðsmanni barna árið 1997. Með vísan í niðurstöður þær sem fram komu í skýrslunni lagði umboðsmaður fram tillögur til úrbóta í bréfi til dómsmálaráðherra sama ár. Umræðan um kynferðisafbrot gegn börnum hélt áfram næstu ár og árið 2005 voru samin drög að frumvarpi um breytingar á ákvæðum í kynferðisafbrotakafla almennra hegningalaga (alm.hgl.). Frumvarpið var samþykkt sem lög nr. 61/2007, um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940 (kynferðisbrot) og tóku lögin gildi 4. apríl 2007. Með setningu laganna var m.a. leitast við að bæta réttarstöðu barna í málum er varða kynferðislegt ofbeldi. Af framansögðu má vera ljóst að refsiákvæði, sem ætlað er að vernda börn fyrir kynferðislegu ofbeldi, hafa verið tekin til gagngerðrar skoðunar síðastliðin ár. En er nægjanlegt að gera róttækar breytingar á refsiákvæðum sem snerta kynferðisafbrot gegn börnum? Hvað með eftirlit í slíkum málum? Börn hafa sjaldnast frumkvæði að því að upplýsa um kynferðisafbrot gegn þeim sjálfum auk þess sem algengast er að um sé að ræða aðila þeim tengdum. Markmið með refsingum er m.a. að draga úr brotum og afstýra þeim, auk þess sem ætla má að fangelsisvist hindri frekari afbrot á meðan á frelsisskerðingunni stendur. Það getur þó vart talist nægjanleg vernd fyrir barnið að róttækar umbætur séu gerðar á refsiákvæðum. Kynferðislegt ofbeldi gegn barni verður að koma upp á yfirborðið svo hægt sé að refsa fyrir það. Eftirlit með einstökum málum sem varða kynferðislegt ofbeldi gegn barni er aðallega í höndum barnaverndarnefnda sbr. 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 80/2002, um barnavernd (bvl.). Eftirlit barnaverndarnefnda verður að vera skilvirkt og á faglegum grunni byggt. Sömuleiðis verður eftirlit með störfum barnaverndarnefnda að vera skilvirkt og gagnsætt. Barnaverndaryfirvöld eru stjórnvöld, og stjórnskipun á Íslandi byggir m.a. á lögmætisreglunni, en samkvæmt henni skal stjórnsýslan ávallt bundin lögum. Hér er um að ræða eina af grundvallarreglum réttarríkisins. Samkvæmt lögmætisreglunni verða ákvarðanir og athafnir stjórnvalda að vera í samræmi við lög og eiga sér lagastoð. Það verður því að gera strangar kröfur til þeirra sem móta réttarreglur á sviði barnaverndar. Þá verður almenningur að geta haft eftirlit með því að stjórnvöld á sviði barnaverndar sinni skyldu sinni. Eftirlit almennings er fyrst og fremst fólgið í aðhaldi, hann hefur aðgang að dómsniðurstöðu og opnum réttarhöldum og á þannig að geta fylgst með framgangi slíkra mála. Það er markmið þessarar ritgerðar, annars vegar að leggja mat á það hvort ákvæði í íslenskri löggjöf mæli fyrir um eftirlit í kynferðisafbrotamálum gegn börnum og hins vegar hvort almenningur geti haft eftirlit í slíkum málum í gegnum dómaframkvæmd. Efnistök verða þannig að í kafla 2 og 3 er leitast við að skilgreina hugtakið barn og hugtakið kynferðislegt ofbeldi. Kafli 4 fjallar um ákvæði sem sérstaklega mæla fyrir um eftirlit í málum er snerta kynferðislegt ofbeldi gegn börnum sem og tilkynningarskyldu í slíkum málum. Í Kafla 5 er fjallað um birtingu dóma og það hvort birtingin þjóni tilgangi sem tæki til eftirlits í málum sem varða kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Niðurstöður eru síðan settar fram kafla 6.

Samþykkt: 
  • 16.12.2011
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/10380


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BA - ritgerð, Ef fjöreggið brotnar (2).pdf202.16 kBOpinnMeginmálPDFSkoða/Opna
Snidmot _BAforsida_Lagadeild - fjöreggið brotið.pdf79.76 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna