Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/10446
Í ritgerðinni verða skoðaðar birtingarmyndir kvenna sem og kyngervis og kynþáttar í barnaefni. Þar sem færa má rök fyrir því að fyrirtæki Walts Disney sé einn áhrifamesti framleiðandi barnaefnis á Vesturlöndum verða myndir þess í brennidepli. Sérstök áhersla verður þó lögð á þær tólf myndir sem Pixar-fyrirtækið hefur framleitt á síðastliðnum sextán árum en segja má að Pixar hafi að mörgu leyti tekið við af Disney sem ásjóna barnamenningar samtímans.
Ritgerðin skiptist í inngang, fjóra hluta meginmáls og niðurstöður. Í inngangi verður varpað fram spurningum sem varða stöðu konunnar í kvikmyndum almennt og í barnaefni sérstaklega. Í fyrsta kafla verður stiklað á stóru í sögu kvenna í kvikmyndasögunni, bæði á bak við tjöldin sem og á hvíta tjaldinu. Þá verður litið yfir farinn veg í feminískum kvikmyndafræðum og sérstaklega skoðaðar hugmyndir sem snerta efni þessarar ritgerðar beint eða óbeint. Þá verður varpað fram spurningum um kyngervi og samsömun í tengslum við viðtökur kvikmyndaáhorfandans. Að lokum er spurt hver hugsanleg áhrif barnaefnis séu á áhorfandann – í þessu tilviki barnið. Í öðrum kafla verður litið á ýmsar rannsóknir sem snúa að þátttöku kvenna sem og birtingarmyndum þeirra í menningu og fjölmiðlum almennt og í barnaefni sérstaklega. Niðurstöður verða ræddar og ályktanir dregnar af þeim. Í þriðja kafla verða teknar fyrir birtingarmyndir konunnar í teiknimyndum Walts Disney og þær skoðaðar með tilliti til feminískra kenninga um hina óvirku, kynferðislegu konu, framsetningu kyngervis og meint hvarf móðurinnar úr menningunni. Í fjórða kafla verða greindar birtingarmyndir kvenna í kvikmyndum Pixar og þær m.a. skoðaðar í ljósi kenninga um hið karllæga auga kvikmyndarinnar, fljótandi samsömun, framsetningu kyngervis og hvarfs móðurinnar. Í niðurstöðum verða teknar saman ályktanir undanfarinna kafla og líkur leiddar að því að framsetning kvenna í myndum Pixar sé ekki síður íhaldssöm en í sígildum kvikmyndum Disney en sérstaklega sé ójafnt hlutfall kvenna og karla í myndum fyrirtækjanna áhyggjuefni þar sem það endurspegli engan veginn raunveruleikann en hafi engu að síður mótandi áhrif á áhorfendur.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Mastersritgerð-pdf.pdf | 1.62 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |