Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/1050
Markmiðið með verkefninu er að athuga hvort hægt sé að yfirfæra kenningar John Philip Jones á íslenskar aðstæður, en hann heldur því fram að það sé nokkuð sama hvað verið sé að auglýsa, tíðnin 1+ á viku í sjónvarpi allt árið skili alltaf bestum árangri.
Rannsóknin byggist á samanburði á árangri auglýsinga fyrir ólík vörumerki með tilliti til kenninga John Philip Jones. Hún fór þannig fram að birtingastarf fyrir tvær ólíkar herferðir var unnið á sama hátt og árangurinn metinn að því loknu. Auglýstar voru tvær ólíkar vörur. Annars vegar dagvara, en hins vegar vara sem þarfnast meiri umhugsunar en svo að ein auglýsing dugi til að setja fólk í kaupstellingar. Vörurnar sem voru auglýstar voru Leppin orkudrykkur og smájeppinn Toyota Rav4. Fyrirtækin voru tilbúin að birta auglýsingar í sjónvarpi í fimm vikur með mikilli dekkun og tíðninni 1+.
Viðhorfskannanir voru gerðar í vikunni fyrir og eftir birtingarnar. Þær voru gerðar til að athuga hvernig vörumerkjavitund væri fyrir birtingarnar og í hvað hún hefði þróast eftir þær. Eftirtektin sem auglýsingarnar vöktu var svo mæld með því að spyrja um það bil 100 manns vikulega. Þannig var hugmyndin að sjá hvernig eftirtektin þróaðist viku fyrir viku.
Eftir að hafa skoðað þessar niðurstöður og borið þær saman er ljóst að auglýsingarnar eru að skila ólíkum áhrifum ef litið er á söluna. Fólk er fljótara að bregðast við dagvöru heldur en stærri vöru.
Það virðist þó ekki skipta máli hvaða vara það er hvaða viðbrögð auglýsingin vekur. Í báðum tilvikum fjölgar þeim sem þekkja eitthvað til vörunnar og þeim sem finnst hún vekja jákvæð viðbrögð.
Tíðnin einu sinni á viku virkar ágætlega til að ná til áhorfenda, en það hlýtur að skipta máli hversu mikið samkeppnisaðilarnir auglýsa á móti. Ef horft er yfir allt árið þá ætti auglýsingin að ná til allra sem hún þarf. Jafnframt ætti hún að lifa af alla samkeppnisaðila sem birta eftir flugaðferðinni, því þeir eru að byrja á byrjun í hvert skipti sem þeir hefja herferð. Púlsaðferðin gæti jafnvel verið góð á íslenska markaðnum því þá þarf aldrei að byrja á að ná athygli heldur einungis ná meiri athygli.
Þetta er í fyrsta sinn sem rannsókn af þessu tagi er gerð hérlendis þar sem borin er saman árangur ólíkra herferða, en með eins birtingum. Svona ein og stök rannsókn getur ekki svarað hvað sé rétt eða rangt í þessum málum. Hún getur leitt líkur að einhverju miðað við þær niðurstöður sem út úr henni koma, en það þarf að gera fleiri rannsóknir og bera niðurstöður þeirra saman við þessar niðurstöður.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
sjonvarpsauglys.pdf | 478.97 kB | Takmarkaður | Áhrif sjónvarpsauglýsinga á Íslandi - heild | ||
sjonvarpsauglys_e.pdf | 78.6 kB | Opinn | Áhrif sjónvarpsauglýsinga á Íslandi - efnisyfirlit | Skoða/Opna | |
sjonvarpsauglys_h.pdf | 143.43 kB | Opinn | Áhrif sjónvarpsauglýsinga á Íslandi - heimildaskrá | Skoða/Opna | |
sjonvarpsauglys_u.pdf | 81.95 kB | Opinn | Áhrif sjónvarpsauglýsinga á Íslandi - útdráttur | Skoða/Opna |