Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/10504
Hvalaskoðun með leiðsögn hófst á Íslandi árið 1995. Hvalveiðar hafa verið stundaðar við Íslandsstrendur frá upphafi byggðar. Togstreita á milli þessara atvinnugreina hefur verið til staðar síðan hvalaskoðun hófst og hefur skörun á nýtingu auðlindarinnar skapað miklar deilur. Enn fremur eru deilur um hvalveiðar tengdar ímynd Íslands sem ferðamannastaðar og útflutningsvöru sem hvoru tveggja byggir á umhverfisvænni ímynd. Stjórnvöld hafa sett fram stefnumörkun um nýtingu hvalastofna og á undanförnum áratugum hafa þau lagt í vinnu til að sætta ólík sjónarmið hagsmunaaðila, meðal annars með rannsóknum, skýrsluskrifum og setningu reglugerða. Byggir stefnumörkun íslenskra stjórnvalda ennfremur á sjálfbærri nýtingu og þeim viðmiðum og áherslum sem sett hafa verið í samningum á alþjóðavettvangi.
Ljóst er þó að þrátt fyrir skýrsluskrif, rannsóknir og reglugerðir, þá hefur stjórnvöldum ekki tekist að skapa sátt um nýtingu hvalastofna við Ísland. Áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu á Íslandi virðast enn óveruleg en erfitt er að segja til um hversu lengi það muni endast. Hvalaskoðunarfyrirtæki hafa af þessu miklar áhyggjur og segja stefnu stjórnvalda í hvalveiðimálum óásættanlega.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BSc11012012.pdf | 902,86 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |