en English is Íslenska

Thesis (Bachelor's)

University of Iceland > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Please use this identifier to cite or link to this item: http://hdl.handle.net/1946/10614

Title: 
 • Title is in Icelandic „Einn af þessum mönnum var jeg.“ Áhrif hugmynda Henris Bergson á myndmál Kjarvals
Degree: 
 • Bachelor's
Abstract: 
 • Abstract is in Icelandic

  Franski heimspekingurinn Henri Bergson (1859-1941) var gríðarlega virtur og vinsæll fyrirlesari í kringum aldamótin 1900 og fram á fyrstu tvo áratugi tuttugustu aldar. Hann setti kenningar sínar fram gegn ríkjandi ofurtrú á vísindasamfélaginu og gagnrýndi þær hugmyndir að lífið væri vél eða mælanlegt fyrirbæri sem hægt væri að beygja undir mælanleika rökhyggjunnar. Heimspeki Bergsons leiddi til líflegra skoðanaskipta milli almennings og menntamanna og bókin L‘Évolution créatrice (Skapandi þróun) sem kom út árið 1907 er jafnan talin marka upphaf bergsonismans og áhrifa Bergsons á bókmenntir og listir, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Kenningar Bergsons um líðandina (la durée) og lífsþróttinn (élan vital) voru grunnur að bergsonískri fagurfræði sem framúrstefnulistamenn, einkum kúbistar og fútúristar sóttu í og nýttu sér til dýpkunar á eigin listsköpun.
  Þegar Jóhannes S. Kjarval (1885-1972) hélt í námsferð til London um áramótin 1911-1912 kynntist hann fyrst stefnu fútúrista sem vakti áhuga hans. Hann var síðan við listnám í Kaupmannahöfn á árunum 1912-1917 og á þeim tíma blómstraði listalífið í borginni líkt og í París. Farandsýning á verkum ítölsku fútúristanna árið 1912 á vegum Der Sturm gallerísins í Berlín og sýningin „Kúbistar og expressjónistar“ ári síðar höfðu mikil áhrif á mótun framúrstefnunnar í Danmörku. Kjarval átti því hægt um vik að kynnast nýjustu straumum og stefnum í listum og heimspeki Bergsons sem dæmi.
  Áhrifa Bergsons gætti á ólíkum sviðum menningarlífsins á Íslandi á sama tíma og hann var hvað vinsælastur í Evrópu, ekki síst fyrir tilstuðlan Guðmundar Finnbogasonar (1873-1944) sem var doktor í heimspeki og lærði m.a. hjá Bergson. Guðmundur hélt fjölda fyrirlestra hér á landi um heimspekileg málefni, sem voru vel sóttir af íbúum Reykjavíkur.
  Á árunum 1917-1919 gerði Kjarval verkið Hvítasunnudagur sem er undir sterkum áhrifum frá fútúrisma og kúbisma og í því má sjá hvernig hann tengist ríkjandi liststraumum í Evrópu. Í verkinu koma fram sundurgreinandi form og uppbrot sjónarhornsins, sem síðar einkenndu landslagsverk Kjarvals. Kjarval beitir hér strax ákveðnum eklektisma sem verða sterk höfundareinkenni listamannsins og greina má í verkum allan listferil hans. Kjarval tókst að tvinna saman ólíkar aðferðir og fagurfræðilegar hugmyndir á eigin hátt, stefndi einu á móti öðru og fléttaði saman svo úr varð afar persónulegur og sérstakur stíll.

Accepted: 
 • Jan 17, 2012
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/10614


Files in This Item:
Filename Size VisibilityDescriptionFormat 
Aldís Arnardóttir BA ritgerð lokaeintak.pdf2.41 MBOpenHeildartextiPDFView/Open