Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/10649
Þessi ritgerð er lögð fram til B.A.-prófs í íslensku á Hugvísindasviði Háskóla Íslands. Í henni eru skoðaðar breytingar á nokkrum framburðareinkennum 77 einstaklinga á 70 ára tímabili. Björn Guðfinnsson málfræðingur prófaði þá fyrst á Norðausturlandi um 1940 í viðamikilli rannsókn sinni á framburðarmállýskum. Þeir voru þá um 12 ára gamlir. Sumarið 2010 og 2011 var svo rætt við þessa sömu einstaklinga aftur þegar þeir voru orðnir um áttrætt í eins konar framhaldsrannsókn af rannsókn Björns, en hún heitir Málbreytingar í rauntíma í íslensku hljóðkerfi og setningagerð (RAUN).
Þessir einstaklingar skiptast í tvo hópa. 36 þeirra höfðu flust til Reykjavíkur en 41 bjó enn á heimaslóðum á Norðausturlandi. Þau framburðareinkenni sem voru skoðuð eru oftast kennd við norðlensku. Þau eru harðmæli, raddaður framburður og bð-/gð-framburður. Meginmarkmið ritgerðarinnar var að kanna hvort og þá hvernig norðlensku einkennin breyttust hjá þessum einstaklingum og hvort búseta þeirra hafði áhrif á breytingarnar.
Meginniðurstöður þessarar rannsóknar eru þær að öll mállýskueinkennin sem voru skoðuð höfðu látið undan síga og búsetan hefur áhrif á þau. Þeir sem dvöldust áfram á heimaslóðum héldu í öllum tilfellum betur í hvert framburðareinkenni fyrir sig miðað við þá sem fluttust til Reykjavíkur. Hið svokallaða harðmæli, sem er líklega best þekkta framburðareinkenni norðlenskunnar, heldur sér best bæði hjá þeim sem voru áfram á heimaslóðum og þeim sem fluttust til Reykjavíkur. Hin tvö framburðareinkennin, raddaði framburðurinn og bð-/gð-framburðurinn, halda sér ekki eins vel og virðast bæði vera á talsverðu undanhaldi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA-MargretLara.pdf | 1.75 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |