Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/10663
Flestir sem þekkja til skilnaða vina, fjölskyldumeðlima eða jafnvel af eigin raun vita hversu erfitt og sársaukafullt ferli það er að hefja nýtt líf, jafnvel á nýjum stað. Ósætti eru algeng milla hjónanna meðan á skilnaðarferli þeirra stendur, sem getur aukið streitu og sársauka til muna svo að ekki sé minnst á ef börn eru í spilinu.
Skilnaðartíðnin hér á landi er stórt og mikið vandamál. Meðal skilnaðartíðni undanfarin 19 ára er 514 manns á hverju ári en inni í þeirri tölu eru ekki sambúðarslit. Afleiðingar skilnaða eru skelfilegar eins og fram hefur komið, svo skelfilegar að þeir sem skilja stytta líf sitt um fjögur ár samkvæmt rannsóknum. Margar hugmyndir eru uppi um hver grunnorsök skilnaða sé og hef ég lagt mikla áherslu á að sýna fram á að flestar þessara orsaka eigi sér dýpri rætur.
Tilfinningarnar, tilfinningaleg þekking, tilfinningagreind eru grunnþættirnir hvað varðar skilnaðartíðni í dag. Þar eru Gottman, Pia og Bradshaw á sömu hillu. Wallerstein telur orsök skilnaða vera vegna skilnaða foreldra í æsku, sem rökstyðja má með sáraukamódeli mínu, Amato talar um persónuleg vandamál para, Karney og Bradbury telja nauðsynlegt að skilja sögu hvers einstaklings og vanmáttarkennd. Allt tel ég það undirstrika þá sýn mína að meðvirkni, sem alltaf verður til í æsku, sé grunnorsök erfiðra samskipta hjóna á fullorðinsaldri.
Lois Verbrugge og James House, báðir frá University of Michigan hafa gert mjög áhugaverðar rannsóknir um þessi mál. Rannsóknirnar taka því af allan vafa um alvarleika skilnaða. Aukning veikinda er 35% og meðalaldur styttist um fjögur ár. Hin hliðin er sú, að fólk sem er hamingjusamlega gift lifir lengur, það lifir heilbrigðari lífi heldur en fráskilið fólk og þeir sem eru óhamingjusamir í hjónabandi. Vísindamenn eru ekki í vafa um þennan mismun en eru ekki vissir um af hverju þetta er svona, segir John M. Gottman.
Í bók sinni talar Gottman um tvær meginorsakir skilnaða, annars vegar mikinn ágreining hjóna, gerist á 5. til 7. ári hjónabands, og hins vegar að fólk fjarlægist tilfinningalega, skortir á nánd og tengsl, gerist á 10. til 12. ári sambandsins.
Wallerstein heldur því fram að höfuðorsökin sé að viðkomandi hafi upplifað skilnað eigin foreldra.
Amato tekur undir með Wallerstein, en gengur lengra og tengir skilnaðarorsakir við persónuleg vandamál para. Hann segir tvöfalt meiri líkur á að báðir einstaklingar í sambandi eigi við persónuleg vandamál að stríða, þ.e.a.s. reiði, sárindi, afbrýðisemi, getuleysi í fjármálum og framhjáhald, ef foreldrar beggja höfðu skilið miðað við hjónabönd þar sem foreldrar hvorugs höfðu skilið.
Karney og Bradbury leggja áherslu á að til að skilja hvernig hjónaband þróast, dafnar eða fer út um þúfur með tímanum er nauðsynlegt að skilja sögu hvers einstaklings og þá vanmáttarkennd sem hver og einn ber með sér inn í hjónabandið.
John Bradshaw , einn þekktasti fíknisérfræðingur heims, skilgreinir meðvirkni sem sjúkdóm. Ástæðuna segir hann vera þá að viðkomandi hafi glatað sjálfsmynd sinni. Sá sem er meðvirkur er ekki í tengslum við tilfinningar sínar, þarfir og þrár. Náttúran hefur gefið okkur þann eiginleika að spennast upp við tímabundið álag en það er óeðlilegt að spenna sé viðvarandi ástand. Manneskja sem býr við varanlegt álag vegna hegðunar annarra missir tengslin við eigið sjálf, tilfinningar, þarfir og þrár, samkvæmt Bradshaw. Manneskja sem býr við varanlegt álag, vegna hegðunar annarra, missir tengslin við eigið sjálf, tilfinningar, þarfir og þrár.
Út frá áratugalangri reynslu og eigin sjálfsvinnu hefur Pia Mellody hannað líkan sem sýnir hvernig meðvirkni verður til og hvernig hún þróast. Hún talar þar um fimm upprunaleg eðliseinkenni hjá barni sem hafa áhrif á innra verðmætamat þess. Þessi fimm eðliseinkenni eru nokkuð sem öll nýfædd börn hafa. Einkennin eru þau að börnin eru viðkvæm, þau eru verðmæt, óþroskuð, ófullkomin og hvatvís.
Börn eru í eðli sínu viðkvæm og það er hlutverk foreldranna að vernda þau. Heilbrigðir, eða virkir, foreldrar vita að barnið er viðkvæmt og óþroskað og taka mildilega á öllum málum og uppákomum, leiðbeina því, setja skýr mörk, eiga auðvelt með að segja nei við það og raska aldrei þeirri tilfinningu barnsins að það sé elskað. Það hefur ekki áhrif á tilfinningalíf foreldranna þótt barnið geri mistök eða hagi sér barnalega. Þegar barnið eldist setja foreldrar barninu fleiri verkefni og leggja meiri ábyrgð á það, þó ávallt í samræmi við aldur þess á hverjum tíma, þannig að varnakerfi þess styrkist og það á auðveldara með að takast á við hið óvænta.
Eins og kemur fram í kafla 6.1 þá gagnrýnir Gottman hina hefðbundnu hjónaráðgjöf en hann tekur það einnig fram í bók sinni, The Seven Principles for Making Marriage Work, að lengi vel hafi hann sjálfur verið á villigötum í starfi sínu þegar hann fékkst við hjón í sambandserfiðleikum. Hann segist ekki hafa fundið lausnina fyrr en hann fór að fylgjast með pörum sem voru í farsælu hjónabandi.